Stjórnarandstaðan treystir því að kosið verði í haust eins og forsætisráðherra hefur sagt að gert verði. Þetta segir hún eftir að hafa setið samráðsfund með forsætisráðherra í morgun.
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, boðaði formenn stjórnarandstöðuflokkanna á sinn fund í morgun. Fundurinn var hugsaður sem talsamband við stjórnarandstöðuna sem hafði krafist þess að ríkisstjórnin upplýsti nákvæmlega hvenær yrði kosið í haust.
Fundinum lauk á tíunda tímanum og var það samdóma álit formannanna að hægt væri að treysta því að kosið yrði í haust, eins og forsætisráðherra hefur fullyrt.
Treystir orðum forsætisráðherra
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, sagði að loknum fundi að farið hefði verið yfir stöðuna og áætlanir ríkisstjórnarinnar fram á veginn. Árni Páll sagði að forsætisráðherra hefði skýrt það að kosið yrði í haust en gæti ekki sagt alveg nákvæmlega hvenær og að málalisti ríkisstjórnarinnar yrði tilbúinn í vikunni. „Mér fannst vera góður andi á þessum fundi og sýndi að mínu viti áhuga hans á að breyta aðeins um takt í samskiptum ríkisstjórnar við stjórnarandstöðu,“ sagði Árni Páll. Aðspurður hvort hann treysti orðum forsætisráðherra sagði Árni Páll enga ástæðu til annars.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði að stóru fréttirnar fyrir sig væri samráð stjórnarinnar við stjórnarandstöðuna. Nú væri þess að bíða að fá að vita hvenær verði kosið og að það vanti enn.
Boltinn er hjá ríkisstjórninni
Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, segir gott að samtal skuli eiga sér stað milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hún segist fyrst þurfa að sjá eitthvað til að geta fullkomnlega treyst ríkisstjórninni en hún segist tilbúin til að gefa henni tækifæri til að koma með dagsetningu og málaskrá. Aðspurð hvort hún treysti forsætisráðherra svarar Birgitta: „Maður verður bara að taka orð núverandi forsætisráðherra fyrir því að hann ætli sér að skapa traust á milli stjórnarandstöðu og líka við þjóðina.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að forsætisráðherra hafi fullvissað stjórnarandstöðuna um að það verði boðað til kosninga í haust og hann hafi lagt áherslu á að eiga samtal við stjórnarandstöðuna. Hún segir boltann vera á hjá ríkisstjórninni, nú verði hún að koma með tillögu um kjördag og kynna málaskrá sína. Engar nákvæmar dagsetningar um kjördag hafi verið ræddar á fundinum: „Ég er ennþá þeirrar skoðunar að það hefði verið betra að kjósa í vor, ríkisstjórnin leggur áherslu á að það verði í haust og boltinn er hjá þeim núna að koma með einhverja tillögu að dagsetningu.“