Tökulið Game of Thrones komið til landsins

11.01.2017 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd: hbo
Tökulið bandarísku sjónvarpsþáttaraðarinnar Game of Thrones er komið til Íslands en til stendur að gera hluta af 7.þáttaröðinni hér á landi. Reiknað er með að tökuliðið verði að störfum hér á landi fram í febrúar en mikil leynd hvílir yfir verkefninu. Snorri Þórisson, framleiðandi hjá Pegasu sem hefur aðstoðað tökuliðið hér á landi undanfarin ár, vildi ekki tjá sig um máilð þegar eftir því var leitað .

Fram kemur á vef Independent að ferðalangur hér á landi hafi heldur óvænt rekist á Kit Harrington, eina helstu stjörnu þáttanna, en hann leikur Jon Snow. 

Á vef winteriscoming.net í gær voru birtar myndir af starfsmönnum tökuliðsins þar sem spókuðu sig við Jökulsárlón. Myndirnar birtust fyrst á Instagram-síðum þeirra en þær hafa nú verið fjarlægðar.

Tökulið þáttanna hefur vanið komur sínar til Íslands undanfarin ár og þá hafa nokkrir Íslendingar leikið í þáttunum. Kraftajötuninn Hafþór Júlíus Björnsson hefur til að mynda leikið Fjallið og þá hefur bæði Of Monsters and Men og Sigur Rós brugðið fyrir í þáttunum.

 

Behind the scenes #GOT

A photo posted by Hafþór Júlíus Björnsson (@thorbjornsson) on

Búist er við að sjöunda þáttaröðin verði frumsýnd vestanhafs í sumar.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV