Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur fallist á tillögu forsætisráðherra um að þing verði rofið og gengið verði til kosninga 28. október. Þetta kom fram á blaðamannafundi forseta. Guðni sagðist hafa rætt við formenn allra flokka sem sæti eiga á Alþingi um hvort hægt væri að mynda nýja ríkisstjórn. Að þeim viðræðum loknum hafi honum orðið ljóst að slíkt væri ekki í spilunum.

Guðni minnti á að ekki þyrfti að rjúfa þing strax. Þingið gæti starfað áfram fram að kosningum.

Guðni segir að þótt Íslendingar hafi gengið nokkuð oft að kjörborðinu síðustu ár þá verði fólk að nýta atkvæðarétt sinn í komandi kosningum. „Við getum skipt um ríkisstjórnir en við getum ekki skipt um kjósendur.“

Guðni segist vita af því að í dag muni formenn stjórnmálaflokkanna hitta forseta Alþingis og það sé í höndum þeirra að ákveða hvernig þingstörfum verði háttað fram að kosningum.

„Valdið er þingmanna,“ segir Guðni.