„Þetta er óskaplega vandræðalegt“

17.03.2017 - 13:00
Það kom flestum í opna skjöldu þegar upplýst var á dögunum að ekki væru til peningar til að ráðast í þær vegabætur sem Alþingi hafði áður samþykkt. Það var ekki gert ráð fyrir þeim í fjárlögum. Alþingi samþykkir að leggja veg, en ákveður svo nokkrum vikum síðar að veita ekki peningum í verkið. Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar þingsins, ræddi þetta á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann viðurkennir að þessi vinnubrögð séu ekki í lagi.

„Ég get ákveðið að vera stjórnmálamaður og tala í kringum þetta. Ég get líka sagt: þetta er óskaplega vandræðalegt. Segjum það alveg eins og það er.“

Þetta sagði Haraldur Benediktsson á Morgunvaktinni um þessa uppákomu, þegar fólki varð ljóst að ekki var gert ráð fyrir því í fjárlögum að standa við vegaáætlun. Já, hann vissi þetta sjálfur og segist vonast til að aðrir þingmenn hafi áttað sig á þessu. „Ég var einn af þeim sem samþykkti samgönguáætlun í október, vitandi það að í fjármálaáætlun ríkisins væri ekki verið að fjármagna þetta upp í topp. Við erum síðan í fjárlagagerð í desember við mjög sérstakar aðstæður. Þá fór ég fyrir fjárlaganefndinni við sögulega afgreiðslu þingins. Við vorum ekki með neinn skýran meirihluta og vorum að reyna að koma saman fjárlögum - þannig að ríkiskerfið myndi ekki stöðvast. Þá vissum við líka að að ekki væri til staðar það fjármagn sem samgönguáætlun sagði til um. Það hjálpar engum þegar ég segi:  Það er ekkert nýtt að samgönguáætlun er ekki að fullu fjármögnuð. En núna er gatið mjög stórt. Þess vegna segi ég að við verðum líka að hafa dug til að leita annarra leiða til að komast hraðar áfram.“

Eru þetta ekki óheiðarleg vinnubrögð gagnvart kjósendum? „Það voru skapaðar miklar væntingar, og þingið í sjálfu sér. Þessi samgönguáætlun, sem samgöngunefndin vann, var í sjálfu sér ekki meira bólgin en svo að menn voru að setja á dagskrá úrbætur sem voru löngu tímabærar. Það er enginn ofrausn í áætluninni sem slíkri. Þetta er ferillinn, menn setja framkvæmdir inn á áætlun, og búnir að búa sér til ákveðna forgangsröðun, og síðan hefur ríkisbúskapurinn hverju sinni þurft að ráða hvað kemst áfram.“

En þetta höfðu stjórnmálamennirnir kynnt fyrir kjósendum. Þetta er áætlunin sem kjósendur töldu að unnið yrði eftir. „Já, þess vegna segi ég það: Þetta eru ekki heppileg vinnubrögð. Ég kannast vel við það,“ segir Haraldur Benediktsson, sem vonast til að hægt verði að auka framlög til brýnustu vegabóta.

Haraldur Benediktsson viðurkenndi að lamið væri á honum í kjördæminu. Alls staðar væri versti vegur á Íslandi! Að baki væri glataður áratugur. Verkefnin sem bíði væru ærin. Í viðtalinu á Morgunvaktinni var rætt um mikla þörf á styrkingu innviða á landsbyggðinni. Ljúka þarf ljósleiðaravæðingu og tryggja þriggja fasa rafmagn – allt þetta sem þarf fyrir nútíma samfélag.

Þá var rætt um endurskoðun búvörusamninga. Haraldur lýsti sérstökum áhyggjum af stöðu sauðfjárbúskaparins. Miklar birgðir af kindakjöti hafa hrannast upp vegna lokunar erlendra markaða, sérstaklega í Rússlandi.

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi