Kristín Eiríksdóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt. Hér má horfa á og lesa þakkarræðu hennar sem hún flutti á Bessastöðum við verðlaunaafhendinguna.

Virðulegi forseti, kæru gestir. Í kvöld er ég svo þakklát að mig langar bara til að þakka.

Mig langar til þess að þakka fyrir brotin

og fyrir klessurnar

og eitrið

og mig langar til þess að þakka

fyrir svellið

fyrir skessurnar

og hrútana

og mig langar til þess að þakka yfirvaldinu

og mig langar til þess að þakka búningunum þeirra

og mig langar til að þakka öllum sem komu að gerð

þessa búninga

og mig langar að þakka nál og tvinna

og mig langar að þakka líkninni og leiðanum

og mig langar að þakka sífrinu og hringlinu

og mig langar að þakka beinunum

og vöðvunum

og dælunni

en kannski ekki síst húðinni

og mömmu

ég vil þakka lónni og hálmstráinu og hundunum

sem mamma leyfði mér ekki að fara í

heldur hlustaði á ljóðin mín

líka þegar þau voru ort af ellefu ára stelpu

og mig langar að þakka ykkur fyrir að hlusta

en mig langar líka til þess að hvetja ykkur

til að hlusta ennþá meira

hlusta í algerri þögn

eftir því sem kemur

og ég þakka fyrir andann

fyrir opin og fyrir ógeðið

fyrir ljósið og frábrigðin og rofið

og undirstöðuna og þungamiðjuna og leyfið

forréttindin, skömmina

sakleysið og syndina

upplausnina og plássið

ég þakka fyrir kvíðann

og sorgina og hjartað

og lungun og lifrina

en ekki síst

vil ég þakka

fyrir tærnar

fyrir fingurna

fyrir reykinn

fyrir kaffi

fyrir þokuna

skilninginn

og sönginn.