Það er út í hött að ræða afsögn Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, vegna skipunar dómara við Landsrétt, að mati Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Hún hafi talið sig hafa fullnægt rannsóknarskyldu þegar hún skipti út fjórum þeirra fimmtán dómara sem hæfisnefnd lagði til að yrðu ráðnir, þó að Hæstiréttur hafi komist að annarri niðurstöðu.

„Að tala um afsögn ráðherra af þessum ástæðum finnst mér algjörlega út í hött og mér finnst að menn ættu bara aðeins að minnka gargið og þvargið í kringum þetta og horfa á hvert er efni málsins. Það er ekkert tilefni til ráðherraafsagnar í þessu máli. Hvaða ráðherra úr hvaða flokki sem væri ætti í hlut,“ sagði Páll Magnússon í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar var rætt við hann og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmann Viðreisnar. 

Telur málið ekki kistil á baki dómsmálaráðherra

Hefði verið heppilegra fyrir ríkisstjórnina að velja nýjan dómsmálaráðherra? „Nei, ég lít ekki svo á að þetta sé neinn sérstakur kistill á baki dómsmálaráðherra. Það voru áhöld með hvaða hætti skyldi fara með þetta stjórnsýslulega. Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu. Hann hefur lokaorðið í málinu. Þá þurfa menn bara að snúa sér að því að bæta úr því sem kann að hafa farið úrskeiðis í þessu. Ráðherrann taldi sig hafa uppfyllt þessa rannsóknarskyldu. Hæstiréttur sagði „nei, þú gerðir það ekki“ og þá er það bara lokaorðið í málinu og þá þarf að búa betur um hnútana næst. En að þetta sé eitthvert afsagnarefni fyrir ráðherra finnst mér út í hött,“ segir Páll.

Þorgerður Katrín fer ekki fram á afsögn

Þingið hóf störf að nýju eftir jólaleyfi í gær og hófst með almennum stjórnmálaumræðum. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagðist þá styðja það að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fari yfir málið. Þorgerður Katrín kveðst sammála forsætisráðherra. „Síðan Hæstiréttur kvað upp sinn dóm, og miðað við það sem kom fram í fjölmiðlum í gær þá hefur ráðherra hefur hunsað eindregin tilmæli og ráðleggingar sérfræðinga ráðuneytisins í þessu mikla máli sem var mjög viðkvæmt og erfitt, meðal annars fyrir samstarfsflokkana á sínum tíma sem gengu út frá Því að hún væri búin að uppfylla sína rannsóknarskyldu og upplýsa um alla þætti,“ segir Þorgerður. Hún kveðst ekki krefjast afsagnar dómsmálaráðherra núna, heldur vilji hún að máli verið að fullu upplýst og fari fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.