Bankaleynd nær ekki til blaðamanna, segir Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði, og telur að lögbanni á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media verði hnekkt fyrir dómstólum.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu féllst í gær á kröfu Glitnis um lögbann á frekari fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum úr fallna bankanum. Fréttirnar hafa aðallega snúið að viðskiptum Bjarna Benediktssonar, þá alþingismanns, síðustu dagana fyrir bankahrun. Glitnir óttast að gagnalekinn, sem varði þagnarskyldu eða bankaleynd, kunni að leiða til skaðabótaskyldu þrotabúsins. 

Í 58. grein laga um fjármálafyrirtæki segir að starfsmenn fjármálafyrirtækja, endurskoðendur og aðrir sem taki að sér verk í þágu fyrirtækisins séu bundnir þagnarskyldu um allt sem þeir fá vitneskju um og varða viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna. Þá segir í annarri málsgrein lagagreinarinnar að sá sem veiti slíkum upplýsingum viðtöku sé sömuleiðis bundinn þagnarskyldu. Ólíkar skoðanir eru uppi um hvernig skuli túlka seinni málsgreinina, það er hvort bankaleyndin eigi aðeins við um starfsmenn fjármálafyrirtækja.

 

Birgir segir að það hafi verið mat Fjármálaeftirlitsins árið 2009 að bankaleyndin næði líka yfir blaðamenn í tilfelli lánabókar Kaupþings, en aldrei hafi verið tekist á um lagatúlkunina fyrir dómstólum. „Og um þetta var nú bara skrifuð heil greinargerð um svipað leyti þar sem þessi íslensku lög voru borin saman við lög erlendis og þetta ákvæði á Íslandi stendur svolítið út úr og er einna svipaðast, samkvæmt þessari greinargerð Dóru Guðmundsdóttur, ákvæðinu í Danmörku. Niðurstaða greinargerðarinnar var hins vegar sú að þetta ákvæði myndi trúlega verða túlkað eins og það hefur verið túlkað í Danmörku, það er að segja að þessi bankaleynd næði ekki til fólks út í bæ, næði ekki til blaðamanna,“ segir Birgir. 

Birgir segir eðlilegt að skýr krafa sé gerð til þeirra sem höndli með slíkar viðkvæmar fjármálaupplýsingar, að þeir séu ekki að blaðra um þær opinberlega. „En þegar menn eru að færa þessa þagnarskyldu yfir á blaðamenn sem hafa það að hlutverki að segja frá og upplýsa fólk, er verið að gefa í skyn að þeir séu blaðrandi um einhverjar upplýsingar sem ekki á að blaðra um og segja þannig að þeir séu kannski blaðurmenn frekar en blaðamenn sem að ég held að við munum seint samþykkja. Í samræmi við þetta á ég nú svona fastlega von á því að þetta muni bara fara fyrir dómstóla og ég reikna frekar með að þessu lögbanni verði hnekkt.“