45% kjósenda telja heilbrigðismálin vera mikilvægasta umfjöllunarefni fjölmiðla í aðdraganda þingkosninganna í næsta mánuði. 13% telja að málefni aldraðra og öryrkja séu mikilvægust. Þetta kemur fram í könnun sem Maskína gerði fyrir RÚV.

Sex vikur eru til kosninga og því ákvað fréttastofan að kanna hvaða málefni brynnu helst á kjósendum og hvað þeir vildu að fjallað yrði um í aðdraganda kosninganna. Þátttakendur voru beðnir um að raða upp 12 kosningamálefnum eftir mikilvægi þeirra.

Heilbrigðismálin eru kjósendum ofarlega í huga samkvæmt könnun Maskínu. 45% aðspurðra telja stöðu heilbrigðiskerfisins mikilvægasta málið - 34,2% karlar og 55,2% konur.  Mikill meirihluti þeirra sem settu heilbrigðiskerfið í fyrsta sæti eða 61,2% voru yngri en 25 ára og ef gengið yrði til kosninga í dag myndi 65,7% þeirra kjósa Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. 

Málefni aldraðra og öryrkja er það málefni sem næst flestir telja mikilvægast fyrir kosningarnar í október eða rúmlega 13%.  34,3% þeirra sem telja þetta málefni eiga að vera efst á baugi eru 65 ára og eldri en einungis 2,8% af þeim eru á aldrinum 25 til 34 ára. Ef gengið yrði til kosninga í dag myndi 16,3% þeirra kjósa Framsóknarflokkinn en einungis 2,7% kjósa Bjarta framtíð.

Þá telja 7,2 % að húsnæðismálin séu mikilvægust . Einn af hverjum tíu sem var þessarar skoðunar var á aldrinum 25 til 34 ára en enginn af svarendum sem eru yngri en 25 ára töldu að húsnæðismálin væru mikilvægust. Ef gengið yrði til kosninga í dag myndi 20,8% kjósa Bjarta framtíð en einungis 1,6% kjósa Vinstihreyfinguna – grænt framboð.

Rúmlega þriðjungur þeirra sem tóku þátt töldu að önnur málefni væru mikilvægust en þau sem hafa verið nefnd hér að ofan. Þannig nefndu 6,2% skattamálin, 5,4% endurskoðun stjórnarskrárinnar og 5% Reykjavíkurflugvöll annars vegar og menntamálin hins vegar.

4,4 prósent töldu að mest ætti að fjalla um atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og 3,6% nýtingu náttúruauðlinda og gjaldtöku. Enn færri vildu ræða umhverfismál, aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið, og málefni innflytjenda, flóttamanna og hælisleitenda sem hafa verið hitamál í samfélagsumræðunni að undanförnu.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á netinu og fór fram dagana 9.-15. september 2016. Íslendingar af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu tóku þátt. Send var áminning þrisvar sinnum á þá sem ekki höfðu svarað. 

Svarendur voru 793 og voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá.