„Starfið leggst mjög vel í mig. Ég tek við starfinu af mikilli auðmýkt. Og er þakklát því trausti sem mér hefur verið sýnt,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, nýr utanríkisráðherra, að loknum ríkisráðsfundi á Bessastöðum síðdegis.
Hvenær var þér boðið þetta embætti?
„Það er svona tæpur sólarhringur síðan.“
Þannig að þú hefur ekki þurft að hugsa þig mikið um?
„Ég tók mér smá umþóttunartíma.“
Hvaða mál muntu leggja áherslu á sem utanríkisráðherra?
„Ég mun að sjálfsögðu fylgja stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er stjórnarsáttmáli í gangi. Og ég náttúrulega fylgi honum. Ég á eftir að kynna mér þetta aðeins betur. Ég mun hitta starfsmenn ráðuneytisins, það verða lyklaskipti á morgun. En ég er þegar byrjuð að setja mig í samband við ráðuneytið og kynna mér brýnustu málin og það sem tekur við.“
Ertu á sömu línu og flokkurinn í utanríkismálum?
„Já ég er það.“
Þú hefur starfað fyrir Evrópusinna ekki satt?
„Jú það er rétt. En það var á sínum tíma. Og það sem ég var að gera þá var að skoða kosti og galla aðildarumsóknar. Þetta var í kringum 2005. Það hefur ýmislegt breyst, bæði í Evrópu og á Íslandi. Þannig að ég styð það fyllilega að aðildarumsóknin var dregin tilbaka.“
Er þetta vísir að því sem koma skal, stefnir þú að því að taka þátt í kosningum í haust?
„Tíminn mun leiða það í ljós. Ég ætla að reyna að standa mig afskaplega vel á næstu mánuðum. Ég ætla bara að sjá til hvernig mér gengur og ég ætla að vega og meta það þegar að því kemur.“
Hvernig tilfinningin er það að vera sest í ríkisstjórn?
„Ég finn til mikillar ábyrgðar og ætla að vanda mig og gera mitt besta.“
Saknarðu Sigmundar Davíðs úr ríkisstjórn?
„Já ég geri það.“