Stjórnvöld segja framlög til LHÍ hafa hækkað

19.06.2016 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjárframlög ríkisins til Listaháskóla Íslands hækkuðu um 123 milljónir króna á fjárlögum þessa árs frá því í fyrra, samkvæmt menntamálaráðuneytinu. Ráðuneytið segist hafa gert allt til að koma til móts við kröfur skólans en rekstrarvandinn sé til kominn vegna aukinna umsvifa.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, sagði í ræðu sinni við útskrift skólans á föstudag að stjórnvöld færu einungis fram á aðhaldsaðgerðir eða niðurskurð í stað þess að inna hana eftir listrænum markmiðum eða þróun skólastarfsins. Skólinn búi við fullkomlega óviðunandi húsnæði og áskorunum um úrbætur hafi verið mætt með tómlæti.

Samkvæmt upplýsingum úr menntamálaráðuneytinu hefur hugmyndum um frekari uppbyggingu skólans í Laugarnesi ávallt verið ýtt til hliðar. Ánægja sé því ef náðst hafi eining innan skólans um að byggja upp þar. 

Þá bendir ráðuneytið á að fjárframlög til skólans hafi hækkað um rúmar 123 milljónir króna á fjárlögum þessa árs. Fjárhagsstaða skólans sé hins vegar veik - rekstur hans skilaði tæplega 80 milljóna króna halla í fyrra. Fundað hafi verið þrisvar um þann vanda síðan í desember og ávallt reynt að svara erindum skólans um stöðuna. 

Listaháskólinn telur að halla síðasta árs megi rekja til launahækkana, húsnæðiskostnaðar og endurnýjun tölvukerfa. Á hinn bóginn telur ráðuneytið að umtalsverður hluti hallans sé vegna aukinna umsvifa eða því að horft hafi verið framhjá hagræðingaraðgerðum. Stjórnvöld vilji vera í góðu samstarfi við Listaháskólann um lausn rekstrarvandans en þar þurfi skólinn og ráðuneytið að vera samstíga.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV