Fyrrverandi ráðherrar og framámenn í viðskiptalífi og hreyfingum launafólks eru í hópi fólks sem kom saman í dag til að ræða meðal annars efnahagsmál og aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Fólkið mun eiga það sameiginlegt að hafa áhyggjur af ástandinu í þjóðfélaginu og hvernig umræður þróast.
Í hópnum er að finna fólk úr flestum flokkum sem eiga sæti á Alþingi og fleiri til. Það sem mun helst brenna á fólkinu er stjórn efnahagsmála annars vegar og hins vegar það að samningaviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram og samningur úr þeim borinn undir þjóðaratkvæði. Hér að ofan má hlusta á viðtal fréttastofunnar við Benedikt Jóhannesson, framkvæmdarstjóra Heims.
Meðal þeirra sem mættu á fundinn eru Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims, Vilmundur Jósepsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris. Einnig þau Jón Sigurðsson, Jón Kristjánsson og Valgerður Sverrisdóttir sem öll hafa verið ráðherrar fyrir hönd Framsóknarflokksins. Þá eru á staðnum þau Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður tveggja ráðherra Samfylkingarinnar, Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir, báðar fyrrverandi þingmenn Samfylkingarinnar, og Árni Páll Árnason, núverandi þingmaður Samfylkingar. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ samtaka verslunar og þjónustu, Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, og Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, voru einnig meðal fundargesta.
Ekki er ljóst hvað kemur út úr fundinum í dag. Búist er við að þaðan verði send ályktun og að einhvers konar vettvangur kunni að skapast til að hafa áhrif á þjóðmálaumræðuna. Hins vegar er ekki stefnt að stofnun nýs stjórnmálaflokks, alla vega ekki fyrst um sinn. Þá er til þess að líta að fólkið kemur víða að, er með mismunandi bakgrunn og ólíka afstöðu til ýmissa mála.