Eftir stuttan og árangurslausan samningafund í morgun íhuga starfsmenn álversins í Straumsvík að efna til aðgerða til að knýja fram kröfur sínar. Þeir hafa verið samningslausir frá 1. janúar í fyrra eða í rúmt eitt ár.
„Það er alveg ljóst að það þarf að skapa þrýsting til þess að fá þessa aðila í alvöru viðræður," segir Gylfi Ingvarsson talsmaður starfsmanna í álverinu. Búist er við að ákvörðun um aðgerðir verði rædd á fundi eftir helgi.
Þeir eru þegar búnir að reyna ýmislegt til að ná samningum. Efndu til yfirvinnubanns í ágúst í fyrra og frestuðu verkfalli sem átti að hefjast 1. september. Það var boðað á nýjan leik en var aflýst á síðustu stundu vegna þess að menn óttuðust að það yrði til þess að álverinu yrði lokað fyrir fullt og allt. Ekkert hefur gengið en deilan er komin á nýjan stað eftir nýlega yfirlýsingu Sam Walsh, aðalforstjóra RioTinto sem er eigandi álversins. Hann lýst því yfir í bréfi til allar starfsmanna víða um heim að engar launahækkanir væru í boði á þessu ári. Stjórnendur hér heima virðast ekki vita nákvæmlega hvernig þessi yfirlýsing snýr að hinni rúmlega eins árs kjaradeilu.
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri SA, segir að á samningafundi í morgun hafi komið skýrt fram að tilboð sem voru á borðinu fram til 6. janúar séu fallin úr gildi eftir yfirlýsingu forstjórans.
„Já, það kom alveg skýrst fram að það væri nú komin þessi lína sem menn verða að vinna eftir. Það hefur ekkert nánar verið útfært hvernig það kemur inn í okkar umhverfi hér á Íslandi. Þetta er yfirlýsing sem er gefin á heimsvísu og sem er ekki beint sérstaklega gegn Íslandi. Þetta eru viðbrögð fyrirtækisins við mjög erfiðum markaðsskilyrðum. Við eigum að sjá með hvaða hætti hægt er að útfæra þetta inn í okkar samningsumhverfi hér," segir Þorsteinn Víglundsson.
Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir að viðræður séu komnar á núll punkt í ljósi þess að að allt sem var uppi á borðum hafi verið dregið til baka í kjölfar yfirlýsingar forstjórans.
„Það voru engin svör á fundinum um hver staða Íslands væri í þessari yfirlýsingu. Við erum í raun á núll punkti því það er ekkert um að semja. Það er verið að bíða eftir því frá móðurfélaginu hvað það ætlar að gera hér á Íslandi. Þannig að við erum bara stopp," segir Guðmundur.