Félags- og húsnæðismálaráðaherra segist hafa verið í slagsmálum við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn um framlög til velferðarmála. Sjálfstæðisflokkurinn leggi meiri áherslu á að lækka skatta á þá efnamestu.

Samkvæmt tölum sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur undir höndum hafa vaxtabætur rýrnað mikið á síðustu þremur árum. Þær hafi lækkað um 25% á síðasta ári og þeim sem fá þær fækkaði um 21%. Þá hafi þeim einnig fækkað sem fá greiddar barnabætur. Fjármálaáætlun fjármálaráðherra til næstu fimm ára boðar enn frekari lækkun á barna- og vaxtabótum. Fjallað var um málið í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Eygló segir því ljóst að breytingar á húsnæðiskerfinu séu nauðsynlegar og fjárframlög inn í velferðarkerfið séu aukin. Þær viðræður hafi hingað til strandað á Sjálfstæðismönnum.

„Það hafa verið mikil átök. Stundum jafnvel slagsmál við samstarfsflokkinn um framlög inn í velferðarkerfið. Við höfum svo sem séð það að það er töluverð andstæða við þær breytingar sem ég vil gera á húsnæðiskerfinu. Áherslan þar hefur verið frekar á það að lækka skatta, lækka skatta fyrir þá efnamestu og lækka skuldir ríkisins. Við höfum svo sem séð hver afleiðingin af því var hér fyrir hrun þegar við náðum að lækka skuldir ríkissjóðs en hins vegar voru heimilin að drukkna í skuldum, fyrirtækin að drukkna í skuldum og jafnvel sveitarfélögin líka.“

Eygló segir mikilvægt að stuðningur við heimili landsins verði færður yfir til velferðarráðuneytis og húsnæðisstuðningur, sem fer í gegnum húsaleigu- og vaxtabótakerfi, yrði sameinaður í húsnæðisbótakerfi sem byggir á efnahag fjölskyldu. Núverandi kerfi gangi ekki upp.

„Ég tel að með því þá standi fjölskyldur landsins, eins og ungur fjölskyldufaðir sem hafði samband við mig, frammi fyrir því að hugsanlega skuldsetja sig frekar en að fá sanngjarnan stuðning frá samfélaginu.“

Eygló segir því mikilvægt að velferð frekar en skattar séu í fyrirrúmi og vill hún að vaxtabætur séu sameinaðar nýju húsnæðisbótakerfi og endurskoða stuðning við barnafjölskyldur. En er hún bjartsýn á að samstaða náist við samstarfsflokkinn?

„Við sjáum það bara núna á síðustu dögum hafa menn í Sjálfstæðisflokknum verið að leggja aukna áherslu á velferðarmálin og lagt aukna fjármuni inn í heilbrigðiskerfið. Það er oft betra seint en aldrei. Ég myndi náttúrulega horfa til þess.“