Kona sem hefur þurft að fara í fjölmargar aðgerðir vegna silíkonpúða sem láku, óttast að nýlegir púðar sem hún er með í brjóstum núna leki líka. Þeir eru frá fyrirtækinu PIP en allar konur sem eru með púða þaðan eru beðnar um að hafa samband við lækni. Konan ræddi við Morgunútvarpið í morgun.
Kolbrún Jónsdóttir er ein þeirra um það bil 400 kvenna hér á landi sem eru með svokallaða PIP sílíkonpúða í brjóstum sínum en þeir hafa verið teknir af markaði vegna meintra lélegra gæða sílíkonefnisins sem notað var í þá. Morgunútvarpið ræddi við Kolbrúnu í morgun en hún á pantaðan tíma hjá lýtalækninum sínum í næstu viku. Kolbrún óttast mjög að púðarnir leki og hún þekkir einkennin því það hefur áður gerst hjá henni. Í það skipti er talið að púðarnir hafi rifnað að minnsta kosti tveimur árum áður en það komst upp.
Kolbrún hafði verið með verki um langa hríð en vissi ekki hvað var að hrjá hana fyrr en hún vaknaði einn morguninn og sá þá að pokinn í öðru brjóstinu var tómur. Hún leitaði strax til læknis sem sagðist sjaldan hafa séð jafn slæman leka úr sílíkonpúða. Sílíkonið hafði dreift sér um brjóstholið, hún var m.a. með leifar af því á milli rifja. Reynt var að hreinsa það úr líkama hennar að mestu.
Nokkru síðar fann hún hnút í brjósti og leitaði aftur til læknis. Kom í ljós að hún var með nokkur æxli sem reyndust góðkynja. Í kjölfarið fór hún í fjölmargar aðgerðir. Ekki er sannað að tengsl séu á milli þessa og brjóstastækkunarinnar en Kolbrún telur svo vera. Nokkrum árum síðar lét hún stækka brjóst sín að nýju, þá hafði hún heyrt mælt sérstaklega með tilteknum lækni og ákvað að fara í aðra aðgerð. Sá læknir notaði PIP-púða sem síðar kom í ljós að voru gallaðir. Kolbrún er enn með þessa púða í sér og óttast að þeir leki. Hún á tíma hjá lækni eftir helgi. Þá verður skorið úr um það. En í Morgunútvarpinu í morgun var hún spurð hvers vegna hún hefði ákveðið að láta stækka brjóst sín aftur þrátt fyrir erfiða reynslu. Kolbrún segir auðvelt að svara því, þó hún telji að margir eigi erfitt með að skilja það. Þetta hafi verið mikið lýti. Henni hafi viljað líða eins og konu. Líta út eins og kona. Hún hafi hætt að ganga í kjólum og treysti sér ekki í sund.
Morgunútvarpið hafði líka samband við Geir Gunnlaugsson landlækni og spurði hann m.a hvort til greina komi að vara konur við því að fara í slíkar aðgerðir. Hann segir svo ekki vera. Brjóstafyllingar hafi hjálpað mörgum konum eins og fram hafi komið í máli Kolbrúnar. En Landlæknisembættið leggur áherslu á að þarna sé um að ræða eina gallaða vöru sem sett hafi verið á markað án vitundar eftirlitsaðila í Evrópu. Það eru um það bil 400 konur sem hafi fengið hafa slíka púða hér á landi og þær ættu allar að vera búnar að fá bréf frá lýtalækni sínum með upplýsingum og ráðleggingum.