Skylt að upplýsa um raunverulega eigendur

20.03.2017 - 21:43
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Arion banka ber að upplýsa um raunverulega eigendur bankans strax í vikunni. Fjármálaeftirlitið reiknar með að einhverjir nýju eigendanna hyggist auka við hluti sína í bankanum. 

Eftir að tilkynnt var um kaup fjögurra erlendra fjárfesta á samtals tæplega 30% hlut í Arion banka hefur verið kallað eftir því hverjir standi að baki þeim fyrirtækjum. Fjármálaráðherra hafði meðal annars samband við forstjóra Fjármálaeftirlitsins vegna þessa. Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri FME, segir þessa skyldu hvíla á bankanum sjálfum: „Nú hvílir sú skylda á fjármálafyrirtækjum, í þessu tilviki Arion banka, að birta með reglulegum hætti á sinni heimasíðu hverjir eiga 1% eða meira af hlutum í félaginu og þar með talið, ef um lögaðila er að ræða, hverjir eru raunverulegir eigendur á bak við þá eignarhluti, þannig að það er skylda sem hvílir á bankanum í þessu tilviki, þeir hafa fjóra daga til að uppfylla þá skyldu.“

Reikna með að fjárfestar bæti við hluti sína

Tveir af þessum fjórum fjárfestum eignast 9,99% hlut hvor í bankanum en Fjármálaeftirlitið þarf að veita fjárfestum leyfi til að fara með virkan eignarhlut ef þeir eignast 10% eða meira. Við þá skoðun eftirlitsins ber jafnframt að upplýsa um endanlega eigendur, segir Jón Þór. „Sú staða er ekki komin upp sem sakir standa en við höfum ástæðu til að ætla að einhverjir aðilar úr þessum hópi, eða aðrir, hyggist senda inn tilkynningu um fyrirhugaðan virkan eignarhlut fyrr en síðar.“

Engar reglur um fjárfestingar útlendinga

Engar sérstakar reglur gilda um fjárfestingar útlendinga eða erlendra fyrirtækja í bönkum hérlendis, jafnvel þó þeir kaupi stóran hlut. „Þjóðerni hefur ekkert að segja um það með beinum hætti hvort aðili er hæfur til að fara með virkan eignarhlut. Það er eingöngu það sem getur skipt þarna máli hversu góðar upplýsingar við höfum, að við getum haft viðvarandi eftirlit með því að hann uppfylli hæfisskilyrði, bæði varðandi orðspor og fjárhagslegt hæfi.“