„Það er algjörlega í höndum flokksmanna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, aðspurður hvort hann vilji verða formaður flokksins. Skorað var á hann á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag að gefa kost á sér í formannsembættið á flokksþingi sem haldið verður helgina 1. og 2. október. Sigurður Ingi svarar ekki beint út hvort hann treysti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til áframhaldandi setu sem formaður Framsóknarflokksins.
Segist ekki hafa átt von á áskorunum
„Þessi miðstjórnarfundur sá fyrst og fremst um að boða til flokksþings sem var ákveðið að verði haldið 1. og 2. október. Þar munum við fara yfir stefnuskrána og þar verður kosin forysta flokksins og það er þar sem það kemur í ljós,“ segir Sigurður Ingi. Hann segist ekki hafa átt von á þeim áskorunum sem hann fékk í dag um formannsframboð. „Ég átti ekki von á því en það er rétt að það bárust einhverjar slíkar.“
Treystir þeim sem flokksþing kýs
„Ég hef alltaf og mun alltaf treysta þeim sem flokksmenn kjósa sem formann Framsóknarflokksins til að leiða flokkinn inn í kosningar og stýra milli kosninga,“ svarar Sigurður Ingi aðspurður hvort hann treysti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til að leiða flokkinn inn í kosningar.
Ekki var gert ráð fyrir að Sigurður Ingi tæki til máls á fundinum samkvæmt dagskrá. Hann fór samt sem áður í pontu. „Það er nú pláss fyrir almennar umræður og mér fannst eðlilegt að ég myndi tala þar. Það má alveg deila um það hvort ekki hefði verið eðlilegt að forsætisráðherra hefði líka talað í upphafi fundarins en það er annað mál.“
Sigurður Ingi skaut föstum skotum að Sigmundi Davíð og forystu flokksins í ræðu sinni samkvæmt heimildum fréttastofu. „Ég er nú hluti af forystu flokksins og ég tjái mig ekki um það sem gerist inni á lokuðum fundum Framsóknarmanna.“
Formaður finnur fyrir stuðningi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir, aðspurður um ummæli Sigurðar Inga, að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem menn fari að geta sér til um og lesa í ummæli. Hann segist gríðarlega ánægður með fundinn. Hann hafi ekki vitað fyllilega hvers væri að vænta. „Ég finn fyrir miklum stuðningi flokksmanna,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann kvaðst ekki vera óumdeildur en finna fyrir miklum stuðningi, líka meðal fólks utan flokksins. Fjöldi fólks sem ekki hefði gefið sér að stjórnmálum hefði komið að máli við sig og lýst stuðningi við hann.
Þrír þingmenn gefa kost á sér í fyrsta sætið í Norðausturkjördæmi sem Sigmundur Davíð skipaði í síðustu þingkosningum. Að auki er skorað á varaformanninn í framboð. „Staðan í pólitík er alltaf flókin,“ segir Sigmundur Davíð. Hann segist skilja að þingmenn vilji sýna styrkleikamerki með því að stefna á fyrsta sætið. Hann segir ekki óeðlilegt við núverandi aðstæður að talað sé um varaformanninn sem formannsefni. „Við látum ekki andstæðinga flokksins ráða því hvernig við högum okkar málum. Við leysum þau innbyrðis.“