Skoðar vegtolla á öllum leiðum út frá Reykavík

14.07.2017 - 09:37
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Samgönguráðherra skoðar hvort hefja eigi gjaldtöku á öllum samgönguleiðum út frá höfuðborgasvæðinu vegna brýnna vegaframkvæmda sem kosti hundrað milljarða. Með gjaldtöku megi fara í tugmilljarða framkvæmdir í vegakerfinu árlega næstu árin. Náist samstaða á þingi verði hægt að hefja framkvæmdir strax á næsta ári.

„Þetta  eru þeir kaflar í vegakerfinu þar sem slysatíðni langhæst,“ sagði Jón Gunnarsson samgönguráðherra í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. „ Þetta er kaflinn frá Keflavíkurflugvelli í gegnum Hafnarfjörð og frá Reykjavík til Selfoss ásamt nýrri Ölfusárbrú. Einnig fullnaðarfrágangur upp í Borgarnes, og þá seint á tímabilinu tvöföldun Hvalfjarðarganga og fyrsti áfangi Sundabrautar. Það lætur nærri lagi að kostnaður við þessar framkvæmdir geti legið á bilinu 100 milljarðar ef allt er talið,“ sagði Jón.

Hann benti á að ríkisfjármálaáætlun geri ráð fyrir 10 milljörðum til nýframkvæmda árlega. Kostnaðurinn við framkvæmdirnar á vegunum út frá höfuðborginni sé meiri en hægt verði að fara í þær fyrir fjármagn úr ríkissjóði og því verði að leita leiða til að fá nýtt fjármagn. Gjaldtaka verði til þess að hægt verði að nota fjármagn úr ríkissjóði til að kosta mikilvægar framkvæmdir á landsbyggðinni, svo sem brýnar samgöngubætur á  sunnanverðum Vestfjörðum.

Ferðamenn hjálpi við uppbyggingu

Hann sagði að sá mikli fjöldi ferðamanna sem noti samgöngukerfið geti hjálpað til við uppbygginguna. „Við þurfum að ná í þessa einskiptisgreiðendur, sem ferðamennirnir eru, til að hjálpa okkur sem mest í þessari uppbyggingu,“ segir Jón. „Það munar stórkostlega um þeirra framlag í þessu formi og mun hjálpa okkur til að byggja upp öruggara og betra samgöngukerfi sem er jú ein af grunnlífæðunum ef við ætlum að hafa alvöru byggðastefnu og byggðaþróun í þessu landi,“ sagði hann.

Tillögur í sumarlok og framvæmdir hugsanlega á næsta ári

Nú sé nefnd starfandi sem skoði möguleika á gjaldtöku sem leggja muni fram tillögur í sumarlok og hægt verði að hefja framkvæmdir á vegunum í kringum höfuðborgarsvæðið strax á næsta ári. „Það eru verkefni á öllum þessum leiðum, sem við erum að skoða hér, tilbúin til framkvæmda, svo sem tvöföldun Reykjanesbrautar og kaflar uppi á Kjalarnesi,“ sagði Jón. „Ef við náum samstöðu á þinginu í haust er hægt að hefja framkvæmdir á grundvelli þessa strax á næsta ári,“ sagði hann. 

Jón benti jafnframt á að af framkvæmdunum yrðu ruðningsáhrif eftir tvö til þrjú ár. „Þessar stóru fjárfreku framvkæmdir hér í kringum höfuðborgarsvæðið þurfa þá ekki að fá framlag úr ríkissjóði. Það mun styrkja okkur mjög í átaki í samgöngumálum um allt land,“ sagði hann. 

Jón sagði einnig að verði ákveðið að ráðast í gjaldtöku verði hún samræmd. Hægt verði að njóta sömu afsláttarkjara í öllum vegtollum því ávinningurinn af nýframkvæmdunum verði að vega meira en kostnaðurinn við notkun þeirra. Hann játaði því að vegtollar væru umdeildir og ekki væri eining um þá. „Þessi umræða hefur þroskast mjög mikið eftir að við settum hana í gang í vetur. Það hefur alla tíð verið miklu meiri skilningur og áhugi á vegtollum á vestanverðu landinu þar sem fólk er vant því að borga í Hvalfjarðargöngin, þar sem fólk finnur muninn,“ sagði Jón. Íbúar annarra landshluta þurfi meira að venjast hugmyndinni og sætta sig við hana. „Það er mjög mikilvægt í mínum huga að gjaldtökunni sé stillt í hóf fyrir þá sem þurfa að fara reglulega um slík gjaldhlið. Svo framkvæmdin fari af stað þarf að vera ávinningur notenda vegna tímasparnaðar af ferðum og eldsneyti. Svo ekki sé talað um samfélagslegan ávinning af fækkun slysa,“ sagði Jón. Hann benti á að engin banaslys hefðu orðið á tvöföldum kafla Reykjanesbrautarinnar sem áður hafi verið einn hættulegast vegakafli landsins.