Í Kastljósi í kvöld, þar sem fjallað er um fordæmalaus afskipti Matvælastofnunar af eggjabúum Brúneggja, er meðal annars vitnað í eftirlitsskýrslur sem skrifaðar voru eftir heimsókn eftirlitsmanna á vegum stofnunarinnar á eggjabúið á Stafholtsveggi. Ein þeirra sker sig sérstaklega úr - hún er frá 6. október í fyrra. Þá var meðfylgjandi myndband tekið.

Matvælastofnun kom þennan dag í óboðað eftirlit  - tæpum mánuði eftir að stofnunin hafði gefið Brúneggjum lokafrest til að gera úrbætur.

Í eftirlitsskýrslunni er dregin upp dökk mynd af ástandinu á eggjabúinu, fuglarnir eru mjög skítugir og sumir orðnir meira og minna fiðurlausir.  „Loftgæði eru mjög slæm í öllum húsum. Þar sem er lágt til lofts, sérstaklega innst í húsunum var loftið það þungt (ammoníakslykt) að skoðunarmenn áttu erfitt með að anda.“ segir í skýrslunni. 

Í skýrslunni kemur jafnframt að of margir fuglar hafi verið settir inn í öll húsin. Samkvæmt reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu mega 8 hænur vera á hvern fermetra en í skýrslu MAST kemur fram að í sumum húsum á Stafholtsveggjum 2 séu allt að 15 hænur á hvern fermetra.

Þá er nefnt í skýrslunni að þótt ekki sé gerð krafa um ástand fiðurhams í reglugerð þá gefi ástand hans vísbendingu um aðbúnað og líðan dýranna.  Á Stafholtsveggjum var ástand á fiðurham 95 prósenta fugla slæmur eða mjög slæmur og slíkt má rekja til vöntunar á fóðurlínu, of mikils þéttleika, blauts undirburðar og almennra vanþrifa. „Margar hænur í húsi 10 voru daufar og sýndu ekki eðlilegt atferli.“

Fjallaði verður ítarlega um málið í Kastljósi í kvöld, strax að loknum fréttum, veðri og íþróttum. Þar kemur meðal annars fram að dagsektir sem Matvælastofnun lagði á fyrirtækið nema 2,6 milljónum króna.  Og það var ekki fyrr en Matvælastofnun hafði beitt fyrirtækið þvingunaraðgerðum og dagsektum í 77 daga að aðbúnaðurinn á Stafholtsveggjum 2 var komin í ásættanlegt horf.