„Það er að minnsta kosti ekki hægt að halda því fram eftir þennan fund að það sé bara einhver afmarkaður minnihluti flokksmanna sem er ósáttur við stöðuna. Það er öðru nær,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, um miðstjórnarfund flokksins í dag. Hann fagnar því að flokksþing verði haldið í haust en segist ekki geta svarað því hvort hann gefi aftur kost á sér til formanns. Honum þótti ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns „ekkert sérstök“.
„Ég hef svo sem heyrt hann svipaðar ræður áður. Maður hefði viljað sjá hann einbeita sér meira að því að boða einhverja stefnu, einhverjar lausnir en hann auðvitað ræður því hvaða nálgun hann hefur,“ segir Sigmundur Davíð um ræðu Sigurðar Inga á miðstjórnarfundinum, í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur.
Aðspurður hvort það andaði köldu milli hans og Sigurðar Inga sagði Sigmundur að ekki væri búið að gera upp það sem gerst hefði í aðdraganda flokksþingsins í haust og á flokksþinginu sjálfu. „Meðan það er allt saman óleyst hefur það áhrif á samband manna og erfitt að byrja að byggja á grunni sem er ekki kominn.“
Metur stöðuna á næstunni
Sigmundur Davíð fagnaði því að flokksþing færi fram í janúar og sagði það mikinn sigur. „Ég ætla að meta það hvernig málin þróast næstu misserin. Hvað pólitíkina varðar get ég ekki einu sinni svarað því hvernig staðan verður eftir viku,“ segir Sigmundur aðspurður hvort hann gefi kost á sér í formannsembættið á ný. „Pólitíkin er að þróast hratt og breytast hratt á Íslandi og víðar reyndar. Ég mun bæði fylgjast spenntur með en líka taka þátt á einn eða annan hátt.“
Eygja nú einhverja von
„Menn hafa velt ýmsum leiðum fyrir sér en niðurstaðan hér, um að flýta flokksþingi Framsóknarflokksins, var held ég mjög mikilvægt til að menn eygðu þó einhverja von um að hægt væri að ná flokknum aftur á strik, það er staðan núna,“ sagði Sigmundur Davíð aðspurður hvort honum hugnaðist hugmyndir um að óánægðir Framsóknarmenn stofnuðu eigin stjórnmálaflokk.