Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni hafi ekki tekist að endurreisa traust sitt innan Framsóknarflokksins. Helgi Seljan talaði við Sigurð Inga í Vikulokunum á rás eitt vegna tíðinda gærdagsins, er hann lýsti því yfir að hann gæfi kost á sér til formanns Framsóknarflokksins. Viðtalið í heild sinni má nálgast í spilaranum hér að ofan.

Sigurður Ingi segir að frá því að hann tók við embætti forsætisráðherra síðasta vor hefði hann lagt sig allan fram um að skapa Sigmundi svigrúm til að endurreisa traust sitt í flokknum svo hann ætti kost á því að snúa aftur í forystu flokksins.

„Á síðustu vikum hefur mér orðið ljóst að það hefur ekki tekist,“ segir Sigurður Ingi.

Hann segir að það séu skiptar skoðanir um formennsku flokksins og hann telur eðlilegt að gera út um málið með lýðræðislegum hætti innan flokksins. „Ég mun sætta mig vel við þá niðurstöðu og bakka upp þann formann sem kjörinn verður,“ segir Sigurður Ingi.

Hann var meðal annars spurður út í frammistöðu Sigmundar í leiðtogaumræðum á RÚV síðastliðinn fimmtudag, sér í lagi hvernig hann útskýrði aðkomu sína að Wintrismálinu.

„Það kristallast í þessu máli að það eru skiptar skoðanir um það hvort formanninum hafi tekist að endurreisa traust sitt í flokknum. Það kemur fram í því að þrýstingur á mig að gefa kost á mér til formanns hefur aukist á síðustu vikum og síðustu dögum ekki síst,“ segir Sigurður.