„Ég er ansi hræddur um að þetta hafi verið minn síðasti landsleikur,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen eftir leikinn gegn Króatíu. Hann varð mjög klökkur þegar hann var spurður um framtíð sína og kom ekki upp orði í drjúga stund áður en hann svaraði.

Eiður Smári sagði í viðtalinu að íslenska liðið hefði því miður ekki leikið nógu vel. Hann sagði leikmenn liðsins hafa reynt að halda ró sinni eftir að Króatar misstu mann af velli. Hann sagði seinna mark Króata hafa verið rothögg. 

78 landsleikir og 24 mörk - glæstur ferill

Eiður á að baki 78 leiki með íslenska landsliðinu frá því hann þreytti frumraun sína árið 1996. Hann hefur skorað 24 mörk í þessum leikjum. Fyrsti leikurinn sem Eiður Smári lék með íslenska landsliðinu var vináttuleikur gegn Eistlandi 24. apríl 1996. Þá kom hinn sautján ára nýliði inn á sem varamaður fyrir Arnór Guðjohnsen, föður sinn. Þeir feðgar náðu þó aldrei að leika saman í landsliðinu. Meiðsl komu í veg fyrir það.

Eiður Smári lék fyrst í meistaraflokki með Val sumarið 1994 og duldist þá engum að þar færi einstaklega hæfileikaríkur leikmaður. Hann fór þaðan til PSV Eindhoven þar sem hann spilaði í tvö ár en glímdi lengi við meiðsli. Þá sneri hann aftur til Íslands og lék sex leiki með KR sumarið 1998. Þaðan fór hann til Bolton þar sem frægðarsól hans tók að rísa. Eiður Smári skoraði 19 mörk í 59 deildarleikjum með Bolton og var síðan seldur til Chelsea fyrir fjórar milljónir punda. Þar myndaði hann stórhættulegt sóknarpar með Jimmy Floyd Hasselbaink.

Chelsea liðið var á mikilli uppleið þegar Eiður Smári lék með liðinu. Það hvarf þó í skuggann fyrir næsta liði sem Eiður lék fyrir, spænska stórveldinu Barcelona. Hann lék 72 leiki fyrir liðið á árunum 2006 til 2009. 

Síðan þá hefur hann leikið með Monaco, Tottenham, Stoke, Fulham, AEK Aþenu, Cercle Brugge og Club Brugge.