Um fimm hundruð íslenskar konur, sem eru og hafa verið í stjórnmálum, eru saman í lokuðum Facebook hópi sem var stofnaður fyrir síðustu helgi. Hann ber heitið Í skugga valdsins. Þar deila þær sögum af kynferðislegri áreitni og valdbeitingu karlmanna í íslenskri pólitík. Sögurnar eru orðnar um eitt hundrað talsins og konur úr öllum flokkum hafa deilt reynslu sinni.
Fjallað var um málið í Kastljósi í kvöld, þar sem þær Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, starfandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Hanna María Sigmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, sátu fyrir svörum.