Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir flest benda til þess að skynsemisöflin í Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu hafi náð undirtökunum og því hafi ríkisstjórnin lagt upp raunhæft plan um losun gjaldeyrishaftanna. Árni Pál Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir aðgerðirnar lofa góðu.

Ríkisstjórnin kynnti í dag aðgerðir um losun gjaldeyrishafta. Slitabúum fjármálafyrirtækjanna er gefinn kostur á að klára nauðasamningi og uppfylla svokölluð stöðugleikaskilyrði - annars verður lagður á þau stöðugleikaskattur sem er 39 prósent.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld. Hann segir þetta lofa góðu en það eigi eftir að sjást nákvæmari útfærslu - hann sagði það sérstaklega gott að það hafi átt sér stað samningaviðræður við kröfuhafa föllnu bankanna og að það séu góðar horfur um að hægt verði að gera við þá samninga. 

Undir það tók Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG og fyrrverandi fjármálaráðherra. Þetta hafi þroskast ágætlega upp á síðkastið - best væri ef tekst að greiða götur þess að búin geti lokið sínu uppgjöri með nauðasamningum.  „Það virðist því eins og skynsemsisöflin í Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytinu hafi náð undirtökunum og lagt upp raunhæft plan,“ sagði Steingrímur.