Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, ræddi við Jóhann Bjarna Kolbeinsson, fréttamann, á Bessastöðum þar sem Bjarni rakti atburðarásina í morgun og í dag. Bjarni átti fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, þar sem hann tjáði honum að ekki yrði unað við óbreytt ástand. Bjarni þakkaði forsetanum fyrir að hafa brugðist við þeim hætti sem hann gerði í hádeginu í dag.

Ólafur Ragnar upplýsti á blaðamannafundi að Sigmundur Davíð hefði farið þess á leit að þing yrði rofið og boðað til kosninga. Hann kvaðst ekki getað orðið við þeirri beiðni án þess að ræða við formann hins stjórnarflokksins.

Bjarni segir að ákveðið hafi verið í gær að hann fundaði með forsetanum klukkan 15 í dag. Dagurinn tók síðan óvænta stefnu með fundi forsetans og forsætisráðherrans.  Bjarni viðurkennir að hann hafði átt von á því að ræða aftur við forsætisráðherra síðar dag eftir að hafa ráðfært sig við þingflokk sinn. „Í millitíðinni hefur síðan komið í ljós að Framsóknarflokkurinn óskar eindregið eftir samtali við Sjálfstæðisflokkinn og halda áfram stjórnarsamstarfinu eftir breytingarnar í dag.“ Bjarni sagði að hann myndi hitta Sigurð Inga Jóhannsson síðar í dag. 

Bjarni upplýsti jafnframt forsetann að þetta myndi taka einhverja daga en hann átti ekki von á því að það myndi taka langan tíma að komast að niðurstöðu.

Bjarni sagði einnig að Sigmundur hefði verið afar skýr á því við sig að hann teldi aðeins tvo kosti í stöðunni - annaðhvort yrði yfirlýstur óskoraður stuðningur við ríkisstjórnina með hann í forystu eða boðað yrði til kosninga. „Ég taldi fleiri kosti í stöðunni og það má segja að einn þeirra sé í fæðingu núna.“ Hann sagði ekki sjálfgefið að Sigurður Ingi yrði næsti forsætisráðherra.  Hann sjálfur myndi ekki gera kröfu um forsætisráðuneytið. 

Bjarni sagði jafnframt að það yrði rætt við Framsóknarflokkinn hvort til greina kæmi að breyta tímasetningu kosninganna.  Það er nánar rætt við Bjarna í spilaranum hér að ofan.