Segir liggja við menningarslysi í fjörum

28.05.2017 - 10:10
Mynd með færslu
Fornleifastofnun vann að því hörðum höndum að bjarga fornminjum úr verbúðum í Gufuskálum.  Mynd: Strandminjafélagið
Það gæti kostað á fjórða hundrað milljónir króna að skrá fornminjar á ströndum landsins og gera áætlun um varðveislu þeirra. Menningarslys, ef ekkert verður að gert, segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Menningarminjar liggja undir skemmdum eða eru í fyrirsjáanlegri hættu á fjölda staða í fjörum landsins vegna sjávarrofs. Verndaráætlun hefur þó ekki verið unnin þar sem yfirsýn skortir. Þetta kemur fram í svörum mennta- og menningarmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við tveimur fyrirspurnum á Alþingi. Aldursfriðaðar fornminjar eru taldar vera um 250 þúsund en aðeins er búið að skrá fimmtung til fjórðung þeirra. 

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sem spurði ráðherrana út í menningarminjarnar segir að taka verði á þessu ef ekki eigi að verða menningarslys. „Það er ekki verið að vinna að þessu með nægilega skipulögðum hætti. Viljinn er fyrir hendi, eins og hjá Minjastofnun, en þar kvarta menn undan því að það vanti fjármagn og mannskap til að sinna þessu.“

Samkvæmt svari mennta- og menningarmálaráðherra gæti kostað um 330 milljónir króna að rannsaka alla strandlengjuna. „Við verðum bara að taka okkur á áður en það verður þarna menningarslys. Ég held að við hljótum að hafa efni á því að varðveita okkar sögu og minjar. Við höfum ekki hallir og arkitektúr stórborga Evrópu en þetta er okkar saga og við eigum að bera virðingu fyrir henni,“ segir Lilja Rafney og vísar meðal annars til verbúða þaðan sem stunduð var útgerð.

Ráðist var í þrjú verkefni við sjóvarnir á síðustu árum. Ráðast átti í tvö til viðbótar í ár en ekki fékkst fjárveiting fyrir þeim á fjárlögum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV