Samfylkingin er til í að taka þátt í fimm flokka stjórn, segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Hann segir að ef málefni sem flokkurinn leggur áherslu á fá inni í slíku samstarfi sé flokkurinn til í stjórnarsamstarf. Logi var fyrsti formaðurinn sem Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, ræddi við í morgun. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, mættu á fund hennar klukkan hálf tólf.

„Þetta virðist nú vera þannig að mjög margir kubbar passa saman milli þessara tveggja flokka,“ sagði Logi Már að fundi loknum. „Við ræddum auðvitað líka hvernig málin gætu blasað við gagnvart öðrum flokkum.“

Logi sagði að ágreiningsmálin væru ekki endilega risastór. Fara þyrfti vel yfir Evrópumálin og kerfisbreytingar í sjávarútvegsmálum. „Á hinn bóginn liggjum við nokkuð þétt saman þegar kemur að velferðarkerfinu, skattakerfinu og öðru slíku. Þetta er ekkert óyfirstíganlegt milli þessara tveggja flokka.“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Viðreisnar, mættu sem fyrr saman á viðræðufundi um stjórnarmyndun. Flokkarnir hafa verið í samfloti frá því skömmu eftir alþingiskosningar sem fram fóru síðasta laugardag í október. 

Eftir hádegi hittir Katrín svo forystumenn Framsóknarflokksins, Pírata og Sjálfstæðisflokksins.