Rúta í vanda á Öxnadalsheiðinni

20.04.2017 - 00:23
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Um 20 björgunarsveitarmenn frá Akureyri fóru á þremur bílum upp á Öxnadalsheiði um klukkan hálfellefu í kvöld, þegar rúta með 17 ferðamönnum lenti þar í vandræðum. Hávaðarok er á heiðinni og var rútan komin hálf út af vegöxlinni og farin að halla ískyggilega. Björgunarsveitarmenn tryggðu rútuna og aðstoðuðu ferðafólkið yfir í aðra fólksflutningabifreið, sem kom þeim niður af heiðinni, að sögn Jónasar Guðmundssonar hjá Landsbjörg. Enn er mjög hvasst þar nyrðra og heiðin lokuð fyrir umferð.

Holtavörðuheiði er líka lokuð og verður það áfram til morguns. 30 björgunarsveitarmenn fóru þangað upp fyrr í kvöld á átta bílum að sækja upp undir 40 manns sem þar sátu fastir. Athugað verður hvort óhætt sé að opna fyrir umferð um Holtavörðuheiðina klukkan sjö í fyrramálið. 

Víða ófærð fyrir vestan

Ófært er um Steingrímsfjarðarheiði, Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði og vetrarfærð á mörgum fjallvegum norðvestanlands, svo sem um Hálfdán, Mikladal og Bröttubrekku. Reiknað er með suðvestanhvassviðri og jafnvel stormi þar efra í nótt. Búast má við skafrenningi og vaxandi éljagangi og blindu á fjallvegum norðan- og norðvestanlands fram á morgun.

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV