Formenn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins segja að viðræður flokkanna um myndun ríkisstjórnar gangi vel. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að niðurstaða kunni að liggja fyrir um helgina. Formaður Vinstri grænna segir að hún hafi ekki hug á að fjölga ráðherrum í ríkisstjórn.
Gengur vel en mikil vinna
„Þetta gengur bara ágætlega en þetta er heilmikil vinna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Hann segir að ekki sé farið að steita á neinu í viðræðunum.
Formennirnir hafa rætt við forystumenn á vinnumarkaði. Sigurður Ingi segir að mikilvægt að ræða við þá, ekki síst vegna hugsanlegrar aðkomu stjórnvalda að kjarasamningum. Þannig gætu menn áttað sig á stöðunni í heild sinni. „Ég held að það hafi verið klókt útspil.“
Ágæt bjartsýni í samtalinu
„Staðan er ágæt, allt á eðlilegri ferð,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann segir að gerð málefnasamnings kunni að klárast um helgina. „Mér finnst vera ágætis bjartsýni í þessu samtali og við erum að þessu til að ná saman. Auðvitað getum við ekki útilokað að eitthvað komi upp á. Mér finnst þetta ganga ágætlega.“
Umræðu um skiptingu og fjölda ráðneyta hefur ekki verið lokið, segir Bjarni og kveður það ekki aðaloatriði í viðræðunum.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna, segir að viðræður gangi vel en stjórnarmyndun taki sinn tíma. Það sjái menn líka í öðrum Evrópuríkjum. „Þannig að það verða allir að vera þolinmóðir.“
Ekkert sem hefur komið á óvart
„Það var vitað fyrirfram hver ágreiningsmálin eru þannig að við erum bara að vinna í því hvernig er hægt að finna einhverjar viðunandi lausnir í þeim. Það er ekkert sem hefur komið á óvart í því,“ segir Katrín. Hún segir samstöðu um að bæta samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu.
Katrín segir að umræða um ráðherrastóla hafi verið opnuð í gær. Hún hefur ekki hug á því að fjölga ráðherrum.