Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segist efnislega ósammála niðurstöðu Hæstaréttar í Landsréttarmálinu, þar sem Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni voru dæmdar 700 þúsund krónur í miskabætur vegna ólögmætrar skipunar dómara við réttinn.
„Ég er ánægð með að þessum málarekstri skuli vera lokið og að það hafi tekist að ljúka honum fyrir áramót, áður en Landsréttur tekur til starfa,“ segir Sigríður. „Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart að ég er ósammála efnislega niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli hvað varðar aðkomu mína að málinu, en ég ætla hins vegar auðvitað ekki að deila við dómarann,“ bætir hún við.
Hún segist í kjölfarið munu setja nýjar reglur um meðferð mála af þessu tagi, eins og sagt var frá í tilkynningu frá ráðuneytinu fyrr í dag.
Sigríður segir aðspurð að málið sé ekki þess eðlis að hún hafi íhugað stöðu sína. Í dómi Hæstaréttar segir að henni hefði mátt vera ljóst að gerðir hennar gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori Ástráðs og Jóhannesar og orðið þeim þannig að meini. Þrátt fyrir þetta hafi hún gengið fram án þess að skeyta nokkuð um þessa augljósu hættu.
„Mér finnst auðvitað leiðinlegt ef þeim finnst hafa verið vegið að sér persónulega, sem var fráleitt af minni hálfu, vegna þess að ég tók alltaf sérstaklega fram og árétta að þeir sem ekki voru skipaðir þarna en voru á lista nefndarinnar, þeir voru að sjálfsögðu meðal þeirra hæfustu,“ segir Sigríður.
Spurð hvort hún skuldi tvímenningunum afsökunarbeiðni segir hún að dómurinn tali fyrir sig.