Það er skoðun þeirra sem í áratugi hafa verið að selja íslenskar afurðir til Bandaríkjanna að mun jákvæðara og auðveldara sé að gera það í dag og þar vegi þungt sú heimsathygli sem íslenskir tónlistarmenn á borð við Björk, Sigur Rós og Of Monsters and Men hafa vakið.
Í Boston er búið að vera mikið húllumhæ af hálfu Íslendinga undanfarna daga. Íslandsstofa og Iceland Naturally hafa staðið fyrir hátíð sem heitir A Taste of Iceland, og stærsta sjávarútvegssýning Norður Ameríku var haldin þar um helgina, þar sem Ísland var mjög áberandi.
Íslensk tónlist og íslensk fyrirtæki
Gísli Marteinn Baldursson er staddur í Boston og ræddi hann við Hlyn Guðjónsson, aðalræðismann og viðskiptafulltrúa Íslands fyrir Norður-Ameríku. Hlynur segir ástæðuna fyrir bættri ímynd Íslands vera samblanda margra þátta.
„Ísland er sífellt að verða meira sýnilegt hvað varðar menningu og listir“ segir hann og bendir sérstaklega á listamenn eins og Björk, Sigur Rós og Of Monsters and Men. Íslensk fyrirtæki eins og Icelandair, Össur og Marel eru einnig vel þekkt og virt.
Jákvæð ímynd hefur góð áhrif
Frá árinu 1999 hefur viðhorf fólks til Íslands á þessum markaði verið reglulega kannað. Til að byrja með voru yfir 80% aðspurðra neikvæðir gagnvart Íslandi og vildu engar upplýsingar. Hlynur segir að þetta hafi verið hægt og rólega að breytast yfir í jákvæða sýn á Ísland, og frá því að fólk vilji ekki upplýsingar yfir í að það vilji upplýsingar.
„Ástæðan fyrir stöðu Íslands í dag hvað varðar t.d. ferðaþjónustu og fleira, er sú að fólk er miklu móttækilegra fyrir vöru og þjónustu frá einhverjum aðila ef þú hefur þokkalega jákvæða sýn á því hver hann er.“