Píratar mælist stærsti stjórnmálaflokkurinn fjórða mánuðinn í röð. Fylgi flokksins mælist stöðugt. Ríkisstjórnin nýtur 36 prósenta stuðnings.
Flokkurinn sem rétt komst inn á Alþingi í kosningunum í apríl 2013 nýtur langmestrar hylli kjósenda þessar vikurnar.
Í apríl í ár mældust Píratar í fyrsta sinn stærsti flokkurinn í könnunum. Fylgi flokksins fór upp í 34 prósent. Síðan hefur það dalað örlítið. Nú mælast Píratar með 32 prósent, annan mánuðinn í röð, í Þjóðarpúlsi Gallup.
Ríkisstjórnin nýtur stuðnings 36 prósenta aðspurðra. Sjálfstæðisflokkurinn er á svipuðu róli og síðustu mánuði, með 24 prósent. Framsóknarflokkur og Samfylking bæta örlítið við sig og mælast jafn stórir, með rúm 12 prósent. Vinstri hreyfingin grænt framboð fer úr 10 prósentum niður í 9 prósent og Björt framtíð fer úr sex prósentum í fimm.
Níu prósent þeirra sem svöruðu Þjóðarpúlsinum sögðust myndu að skila auðu eða sleppa því að kjósa ef gengið væri til kosninga nú. Tæp tólf prósent tóku ekki afstöðu eða svöruðu ekki. 80 prósent tóku afstöðu í könnuninni.
Gallup gerði könnunina á netinu dagana 25. júní til 27. júlí. Ríflega 7000 manns voru í úrtakinu og 57% svöruðu. Vikmörk við fylgi flokkanna eru á bilinu 0,6-1,5 prósent.