Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði lokaðar

19.04.2017 - 21:04
Innlent · færð · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Ofsaveður skall á á Öxnadalsheiði seint í kvöld. Heiðin er orðin ófær. Þrjátíu björgunarmenn úr björgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar fóru upp á Holtavörðuheiði í kvöld til að aðstoða á fjórða tug ferðalanga sem sátu fastir í bílum sínum. Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörgu sagði í samtali við fréttastofu rétt fyrir tíu í kvöld að búið væri að losa flesta bílana sem allir voru á norðanverðri heiðinni.

Flutningabíll valt á heiðinni

Jónas segir að vitlaust veður og illstætt sé á Holtavörðuheiði. Henni hefur verið lokað og er óvíst hvenær hún verður opnuð aftur. Vegagerðin reynir að opna upp úr sjö í fyrramálið ef veður leyfir. Flutningabíll valt á heiðinni í kvöld og var bílstjórinn fluttur á spítala, óvíst er um meiðsl hans.

Landsbjargarmenn minna á að vetrarveður verður víða á landinu næstu daga. Því getur færð spillst fljótt á fjallvegum. Nauðsynlegt er fyrir vegfarendur að fylgjast vel með fréttum af færð á vef Vegagerðarinnar, www.vegagerdin.is.

Hvassviðri og stormur í nótt

Þá vekur veðurfræðingur Vegagerðarinnar á því athygli að vetrarástand er á mörgum fjallvegum norðvestanlands, svo sem Steingrímsfjarðarheiði, Hálfdán, Bröttubrekku, Holtavörðuheiði. Reiknað að suðvestan hvassviðri og stormur eða  19-23 metrar á sekúndu verði með kvöldinu og í nótt. Skafrenningur og að auki vaxandi éljagangur og blinda verður þegar frá líður. Einnig á Öxnadalsheiði í kvöld og nótt.

Holtavörðuheiði lokuð til morguns

Af færð á vegum er það helst að frétta að því er kemur fram í frétt í kvöld frá Vegagerðinni að hálkublettir eru á Hellisheiði.

Ófært og stórhríð er á Holtavörðuheiði. Hún verður ekki opnuð að nýju fyrr en eftir klukkan sjö í fyrramálið, ef veður leyfir. 

Hálka og skafrenningur á Bröttubrekku. Á Svínadal er éljagangur og hálkublettir. Hálkublettir eru á Fróðárheiði og Vatnaleið.

Steingrímsfjarðarheiði er ófær. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á fjallvegum á Vestfjörðum og víða él og skafrenningur. Óveður og hálka er á Mikladal.  Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðum.

Á Norðvesturlandi er snjóþekja í Hrútafirði og á Þverárfjalli og hálkublettir og éljagangur á Siglufjarðarvegi og Vatnsskarði.  Á Norðausturlandi er óveður og hálka á Öxnadalsheiði og víða hálkublettir og éljagangur.

Það er að mestu greiðfært á Austurlandi en hálkublettir á Öxi og hálkublettir og skafrenningur Fjarðarheiði.

Greiðfært er með suðausturströndinni.

Fréttin hefur verið uppfærð

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV