Óvenju mikið um flækingsfugla

03.02.2014 - 16:06
Mynd með færslu
Óvenju margir flækingsfuglar hafa sést hér á landi síðustu vikurnar. 16 akurgæsir eru á meðal gesta og um helgina sást sefþvari á Laugum í Reykjadal. Líklegt er að fuglarnir hafi tekið sér far með austanáttinni til að flýja vetrarhörkur í Evrópu.

Sefþvari (botaurus stellaris) er hegrategund sem hefur ekki oft villst hingað til lands. Fuglinn sem sást á Laugum er sá sjötti sem vitað er til að sést hafi á Íslandi síðan 1937. Yann Kolbeinsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands, segir að þeir séu ef til vill tíðari gestir. Þeir séu felugjarnir og erfitt að koma auga á þá í íslensku mólendi. Sefþvarar verpa víða í Evrópu og Asíu og Yann telur líklegt að fuglinn hafi flúið vetrarhörkur þar.

„Þegar koma svona frostakaflar og vötn frjósa þá leggjast þessir fuglar oft á flakk og reyna að finna sér aðra staði og hann hefur kannski lent í þessum austanáttum sem hafa verið ríkjandi hér síðustu vikur.“

Yann segir óvenju mikið um flækingsfugla. Þannig hafa til dæmis sést 16 akurgæsir á landinu á síðustu dögum og fjórar austrænar blesgæsir. Þetta er óvenjulegt. Aðeins einu sinni hafa sést fleiri Akurgæsir hér á einum vetri. Það var árið 1981 en þá sáust rúmlega 30 fuglar. 

Það var kennari á Laugum í Reykjadal sem kom auga á Sefþvarann. Yann segir fólk duglegt að láta vita þegar það sér sérkennilega fugla þá séu fuglaáhugamenn í auknum mæli farnir að nýta sér samfélagsmiðla eins og facebook til að ræða um fugla. Til dæmis á þessari síðu hér.