Hús árstíðanna kalla þau húsið, sem Dennis Davíð Jóhannesson og Hjördís Sigurgísladóttir akitektar hafa hannað og eru tilbúin með teikningar ef einhver vill byggja. Þau fengu styrk til markaðssetningar úr Hönnunarsjóði nýverið, og bíða nú bara eftir viljugum kaupendum.

Gæti orðið mun ódýrara

Dennis segir að reiknað sé með 300 þúsund á fm í byggingum í dag, en þau stefni að því að ná byggingakostnaði niður. Húsið er 90 fm og á einu plani, byggt úr einingum og timbri. Dennis og Hjördís leggja áherslu á, að byggingarefni og að þeir sem koma að byggingu hússins séu úr sveitarfélögunum, en þau stíla helst á suðurland, því þar vantar fjölda íbúða og hagkvæmara að byggja hús en blokkir. Það er einnig hægt að hafa húsin sem parhús, eða keðjuhús. Rætt var við Dennis og Hjördísi í Mannlega þættinum.