Nýtt lífeyrissjóðskerfi nánast í höfn

14.07.2013 - 19:05
Mynd með færslu
Samkomulag um nýtt lífeyrissjóðskerfi fyrir alla landsmenn er nánast í höfn, segir varaformaður BSRB. Beðið sé eftir að samningar takist við ríkið um samræmingu launa og lausn á vanda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Í nýju kerfi yrði sami lífeyrisaldur og sömu iðgjöld fyrir alla.

Síðustu ár hafa fulltrúar vinnumarkaðarins, ríkis og sveitarfélaga reynt að ná samkomulagi um hvernig sé hægt að samræma lífeyriskjör opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði. Morgunblaðið fjallar ítarlega um málið í dag.

Árni Stefán Jónsson, varaformaður BSRB, segist telja að hann geti fullyrt að hópurinn sé mjög nálægt því að ná samkomulagi. Iðgjöld og lífeyrisaldur yrðu samræmd í nýju kerfi, segir Árni.

Einnig er unnið að framtíðarlausn á vanda A- og B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Lausn á miklum halla sjóðsins er önnur af forsendum þess að samkomulags náist, að sögn Árna, sem jafnframt er stjórnarformaður LSR. Einnig að laun opinberra starfsmanna verði hækkuð í samræmi við það sem gerist á almennum markaði.

Sú vinna á töluvert í land, að mati Árna. Hún sé ekki komin eins langt og æskilegt hefði verið.

Að óbreyttu þarf að hækka iðgjöld ríkis og sveitarfélaga í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í haust. Eins prósents hækkun hefur verið nefnd. Hún dugir skammt til að vinna á hallanum en nægir til að færa hann niður fyrir lögbundið hámark.