Nýju reglurnar snarminnka köfun í Silfru

13.03.2017 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Köfun erlendra ferðamanna verður bara brot af því sem nú er vegna nýrra og hertra reglna um köfun í Silfru. Þetta segir forráðamenn tveggja fyrirtækja sem bjóða upp á köfun. Viðbúið er að þeim sem kafi, fækki um sjötíu prósent. 

 

Banaslys varð í Silfru á föstudag og annað fyrir mánuði. Maðurinn sem lést á föstudag hafði verið við grunnköfun eða snorkl. Yfirvöld og ferðaþjónustufyrirtæki hafa um helgina fundað og settar hafa verið nýjar og hertar reglur. Þeir sem ætla að kafa, og er þá ekki átt við grunnköfun, þurfa að hafa svonefnd þurrbúningsréttindi og þá mega ekki vera fleiri en þrír, í stað fjögurra, með hverjum leiðsögumanni. Blautbúningar verða bannaðir. Þeir sem ætla að snorkla mega ekki vera fleiri en sex, í stað átta, með hverjum leiðsögumanni. Þá þurfa allir sem ætla í Silfru að fylla út og skrifa undir eyðublað þar sem spurt er út í heilsufar og hvort þeir séu syndir. Ósyndir og þeir sem eiga við líkamlegan eða andlegan heilsubrest mega ekki fara í Silfru. Það verður á ábyrgð fyrirtækjanna að tryggja að þessu verði framfylgt, samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu. Unnið sé að útfærslu á þessu, svo sem hver viðurlög við brotum verði og hvernig eftirliti verði háttað. 

Héðinn Ólafsson, eigandi DiveIceland.com, hefur í sextán ár boðið upp á köfun í Silfru. Hann segir að nýju reglurnar breyti mjög miklu fyrir sinn rekstur. Fæstir sem hingað koma hafi þurrbúningsréttindi. Svo að hann geti haldi áfram að reka fyrirtækið þurfi hann að fara að bjóða upp á snorkl, sem hann hafi ekki gert hingað til. 

Jón Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arctic Adventures, tekur undir með Héðni að þeim fækki sem kafi í Silfru. Fækkunin verði líklega um sjötíu prósent. „En á sama tíma þá mun eflaust hluti af þeim fara og snorkla í staðinn,“ segir Jón Þór. 

Reglubreytingin hafi áhrif á rekstur fyrirtækisins. „Já, fjöldi á hvern leiðsögumann fækkar og auðvitað mun það gera þetta heldur kostnaðarsamara að starfa þarna og veita þessa þjónustu en það er ekki það sem þetta snýst um hjá okkur. Við erum miklu meira að horfa til lengri tíma, hvernig getum við gert Silfru örugga til þess að fólk geti notið þess að fara í Silfru um ókomna framtíð,“ segir Jón Þór.