Ómar Ragnarsson flaug yfir gosstöðvarnar norðan Vatnajökuls í dag, ásamt Láru Ómardóttur fréttamanni. Hér getur að líta myndir sem Ómar tók á fluginu.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur hefur fylgst með jarðeldunum frá upphafi. Þegar fréttastofa náði tali af honum um kvöldmatarleytið var hann staddur við sprunguna ásamt fleiri vísindamönnum. Hann segir að gosið breytist sífellt. Virknin sé mun minni heldur en í morgun. Enn sé mikil virkni í norðurenda hraunsprungunnar en þar fyrir utan sé virknin bundin við mikinn gíg í miðri sprungunni og nokkra gosstróka syðst.

Ármann segir að mesta hraunflæðið komi úr norðurendanum, þar sem hraunið vellur upp úr sprungunni. Hann segir að hraunið hafi ekki lengst mikið til austurs í dag. Aftur á móti hafi það lengst til vesturs og sé komið í svokallaðr Flæður þar sem getur runnið talsvert jökulvatn í leysingum og síðdegis á sólríkum dögum. Ármann segir að vatnið sem hraunið sé komið í sé um 10 cm djúpt. Möguleiki sé á sprengingum þegar sjóðheitt hraunið kemst í snertingu við vatnið.