Nú er hægt að hlusta á vitnisburði

04.04.2012 - 14:21
Mynd með færslu
Heimasíða Landsdóms var opnuð rétt í þessu og er þar hægt að hlusta á skýrslutökur yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og þeim vitnum sem kölluð voru fyrir í máli saksóknara Alþingis gegn honum.

Heimasíðuna er að finna á slóðinni landsdómur.is. Auk upptakanna úr réttarhöldunum er þar að finna dóma og úrskurði landsdóms og málflutningsræður saksóknara Alþingis og verjanda Geirs.

Aðalmeðferð málsins gegn Geir hófst 5. mars síðast liðinn og stóð til 16. mars þegar málið var dómtekið. Meðal vitna voru núverandi og fyrrverandi ráðherrar og seðlabankastjórar, embættismenn og forsvarsmenn bankanna sem féllu í hruninu.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær dómur verður kveðinn upp en viðbúið að það verði síðar í þessum mánuði.