Niðurstöður kosninganna

Mynd með færslu
Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks er líklegasta niðurstaðan eftir alþingiskosningarnar í gær. Flokkarnir fengu 19 þingmenn hvor. Stjórnarflokkarnir kolféllu í kosningunum, fara samtals úr 34 þingmönnum í 16. Flokkarnir sem ekki náðu mönnum á þing fengu samtals 11,7 prósent atkvæða.

Stórsigur hjá framsókn

Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í kosningunum og fékk 24,4 prósent atkvæða. Framsókn fær því 19 þingmenn kjörna, tíu fleiri en í síðustu alþingiskosningum. Þá fékk flokkurinn 14,8 prósent atkvæða. Fylgið nú er þó nokkuð minna en flokkurinn mældist með í skoðanakönnunum fyrir kosningar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var að vonum glaður þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína  í nótt. Hann sagðist hlakka til þess að koma markmiðum flokksins í framkvæmd. 

„Ákall samfélagsins er skýrt um að forgangsröðun sem framsóknarmenn hafa boðað í aðdraganda þessara kosninga eigi að ráða för við stjórn landsins skþessum kosningum eigi að ráða för við stjórn landsins á næsta kjörtímabili,“ sagði Sigmundur Davíð meðal annars í ávarpi sínu.  

Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi

 Sjálfstæðisflokkur fékk mest fylgi í kosningunum eða 26,7 prósent atkvæða og 19 þingmenn, eins og framsókn. Sjálfstæðisflokkur bætir við sig þremur þingmönnum frá síðustu kosningum og þremur prósentustigum. Fylgi flokksins reyndist því heldur meira en skoðanakannanir sýndu að undanförnu en er langt undir hefðbundnu kjörfylgi og því sem flokkurinn mældist með fyrr á kjörtímabilinu.

Telja verður líklegt að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur reyni myndun nýrrar ríkisstjórnar. 

Afhroð stjórnarflokkanna

Stjórnarflokkarnir guldu sögulegt afhroð í kosninginum, fara samtals úr 34 þingmönnum í 16. Tapa 27 prósentustigum frá síðustu kosningum. Áfallið er sýnu verra fyrir Samfylkinguna. Flokkurinn fékk nærri 30 prósent í síðustu kosningum og 20 þingmenn. Niðurstaðan nú varð 12,8 prósent og níu þingmenn. Samfylkingin missir 11 þingmenn.

Það var þó engan bilbug að finna á Arna Páli Árnasyni formanni flokksins þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í nótt og hann sagðist stoltur af kosningabaráttunni. 

„Það hvernig við stóðum í gegnum þessa kosningabaráttu alltaf vörð um almannahagsmuni, töluðum gegn sérhagsmunum alveg fram á síðustu stund án tillits til þess hvað það kynni að kosta okkur var stærsti sigur okkar og við getum verið stolt af honum.“  

Niðurstaðan er líka áfall fyrir Vinstri græna sem fengu 10,6 prósent atkvæða eða helming af síðasta kjörfylgi. Flokkurinn fær sjö þingmenn en var með 14 í síðustu kosningum. 

Tveir nýir flokkar á þingi 

Björt framtíð má mjög vel við una, með 8,2 prósent atkvæða og sex þingmenn. Það er mjög gott hjá nýju framboði þótt niðurstaðan sé ekki í samræmi við kannanir fyrr í vetur. 

Píratar voru ýmist ofan eða neðan við fimm prósenta markið í nótt og það réðst ekki fyrr en með síðustu tölum klukkan hálf níu í morgun. Niðurstaðan varð 5,1 prósent og þrír þingmenn. 

11,7% kusu flokka sem náðu ekki á þing

Flokkarnir sem ekki náðu mönnum á þing fengu samtals 11,7 prósent atkvæða - dauðu atkvæðin svokölluðu. Dögun fékk 3,1 prósent, Flokkur heimilanna 3 prósent og Lýðræðisvaktin 2,5 prósent. Aðrir mun minna og sumir nánast ekki neitt.

81,4% kjörsókn

Kjörsókn var 81,4 prósent. 4417 skiluðu auðu eða 2,2 prósent. 0,3 prósent atkvæða voru dæmd ógild. 

Ólafur Ragnar Grímsson forseti tekur á móti Jóhönnu Sigurðardóttur á Bessastöðum í dag klukkan þrjú. Jóhanna mun á fundinum með forseta biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Samkvæmt hefð má gera ráð fyrir að forsetinn feli henni að starfa áfram þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Forseti og Forsætisráðherra ræða við fjölmiðla að fundi loknum. 

 

Hér má sjá lokatölur kosninganna og nöfn allra þingmanna.