Náttúruspjöll í Hverfjalli

29.08.2017 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: Óskar Þór Halldórsson
Talsverðar skemmdir urðu í hlíðum Hverfjalls í Mývatnssveit í gær þegar hópur fólks gekk í fjallinu utan merktra gönguleiða. Hverfjall er friðlýst og athæfi sem þetta því stranglega bannað.

Aðeins er leyfilegt að ganga á Hverfjall eftir merktri gönguleið sem liggur frá bílastæði við norðvestanvert fjallið. Þar eru einnig snyrtingar og frekari aðstaða. Í gær virðist sem einhverjir hafi lagt bílum sínum áður en komið er að aðalbílastæðinu og gengið þar á fjallið.

Fólk bara æðir af stað 

„Þarna myndast þannig aðstæður að fólk horfir ekkert í kringum sig. Þar sem þau stoppa eru engar merkingar og þá æðir fólk bara af stað og fleiri fylgja í kjölfarið,“ segir Arna Hjörleifsdóttir, landvörður Umhverfisstofnunar við Mývatn. „Við erum að bregðast við þessu, merkja og girða betur.“

Áberandi för í fjallinu

Hún segir að það gerist af og til að fólk fari út fyrir merkta gönguleið í Hverfjalli. En mjög sjaldgæft sé að svona margir geri það í einu og fari í sömu slóðina. „Við erum að vinna í því að afmá slóðina, raka yfir förin og reyna að jafna þetta út. Þetta er mjög áberandi á meðan það er blautt undir, en við gerum okkar besta við að afmá slóðina svo fleiri fylgi ekki í sporin.“  

Bannað að ganga utan merktra slóða

„Ytra byrði gígsins er verndað og þess vegna má ekki fara nema á merktum slóðum,“ segir Anna. „Yfirleitt er þetta samt fólk sem veit ekki betur. Það myndast einhver hjarðhegðun, fólk fylgir í spor annarra og þegar það er spurt er fátt um svör. Þá ítrekum við það fyrir fólki að fylgja merktum stígum.“

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV