Nikola Mirotic, leikmaður Chicago Bulls og spænska karlalandsliðsins í körfubolta, brást illa við þegar áhorfendur veifuðu serbneska þjóðfánanum framan í hann þar sem hann gekk af velli eftir tap gegn Ítalíu í fjörugum leik í B-riðli á EM í Berlín í kvöld.
RÚV náði myndbandi af atvikinu en Mirotic er fæddur í Svartfjallalandi árið 1991. Landið var þá hluti af Júgóslavíu. Svartfjallaland lýsti svo yfir sjálfstæði og sleit um leið sambandi við Serbíu árið 2006.
Mirotic flutti fjórtán ára til Spánar og gekk til liðs við Real Madrid og lék fyrir yngri landslið Spánar og varð meðal annars heimsmeistari í U-20 ára flokki með Spáni 2011.
Í dag er Mirotic lykilmaður í liði Spánar en hann gerði samning við Chicago Bulls í NBA-deildinni 2014 sem færir honum ríflega 700 milljónir í árslaun.
Ísland mætir Spáni á EM í Mercedes Benz-höllinni annað kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19 á RÚV og EM-stofa fer í loftið hálftíma fyrr.