Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, fundar nú með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík. Mikil öryggisgæsla er á svæðinu og stór hluti Hverfisgötunnar lokaður.

Fundurinn hófst á því að Wen og Jóhanna skiptust á vinsamlegum kveðjum

Auk forsætisráðherranna sitja fundinn Katrín Jakobsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Guðbjartur Hannesson auk fleiri embættismanna. Þá eru í fylgdarliði Wen utanríkisráðherra Kína, viðskiptaráðherra og þróunarmálaráðherra.

Um tíu Falun Gong liðar mótmæla heimsókn Wen Jiabao á Arnarhóli, nær komast þeir ekki Þjóðmenningarhúsinu en þar er gríðarleg öryggisgæsla og á að giska þrjátíu lögreglumenn að störfum.

Að fundinum loknum verður skrifað undir samninga, meðal annars viljayfirlýsingu sem Íslandsstofa gerir við Þróunarbanka Kína. Í henni felst að Íslandsstofa muni aðstoða bankann við að leita uppi fjárfestingakosti á Íslandi en bankinn muni aðstoða íslensk fyrirtæki við að finna og greina fjárfestingatækifæri í Kína.

Samkvæmt heimildum fréttastofu verður líka skrifað undir samninga um samstarf Íslands og Kína við nýtingu jarðhita í þróunarlöndum og viljayfirlýsingu um aukið samstarf á norðurslóðum.  Kínverjar vilja fá áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og íslensk stjórnvöld hafa verið hlynnt því.