Miðstöð innanlandsflugs verði ekki í Keflavík

Jón Gunnarsson nýr samgönguráðherra segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um annað en að miðstöð innanlandsflugs verði í Reykjavík. Ekki verði búið að leggja annan flugvöll áður en til standi að loka annarri flugbraut á Reykjavíkurflugvelli.

Rætt var við Jón í Morgunútvarpinu á Rás 2. Þar sagðist Jón ekki útiloka að flugvöllurinn geti farið úr Vatnsmýri en telur ekki koma til greina að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. „Það kemur ekki til greina í mínum huga að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Það er mín afstaða.“

Jón kvaðst vonast til að samkomulag náist við borgaryfirvöld.  Báðar hliðar verði þá að vera viljugar til viðræðna og þann vilja finni hann ekki hjá borginni. Byggingarnar á vellinum séu úr sér gengnar. Tryggja verði að flugvöllurinn geti sinnt þessu hlutverki sínu þar til ákvörðun hefur verið tekin um hvernig innanlandsflugi verður háttað til lengri tíma. Jón segist opinn fyrir því að skoða framtíðarskipulag með þeim hætti sem hagkvæmast þykir og vísar í skýrslu Rögnunefndarinnar svokölluðu. Þar var Hvassahraun talið besti kosturinn fyrir framtíðarstað Reykjavíkurflugvallar. Icelandair vinnur að rannsóknum á aðstæðum í Hvassahrauni. Jón segir að verði tekin ákvörðun um að leggja annan flugvöll þá taki það mörg ár. 

Útilokar ekki inngrip í skipulagsmál sveitarfélaga

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er gert ráð fyrir því að flugvöllurinn í Vatnsmýri verði lagður niður. Jón segir að höggva verði á hnútinn í deilunni um flugvöllinn. 

„Ég treysti því að við náum þessu samkomulagi og þessu samtali við yfirvöld í Reykjavíkurborg. Ég trúi ekki að við þurfum að fara í svo öfgafulla aðgerð,“ segir Jón aðspurður um það hvort til greina komi að taka skipulagsvaldið af borginni.

„Það eru mörg fordæmi fyrir því að stjórnvöld hafa gripið inn í skipulagsvald sveitarfélaga þegar almannahagsmunir liggja við. Þær skyldur sem við berum gagnvart þessu mikilvæga samgöngumannvirki geta alveg réttlætt það ef við náum ekki samkomulagi. Í þessu felst engin hótun af minni hálfu.  Það hefur blasað við okkur öllum að þetta hefur gengið erfiðlega, að ná ásættanlegri niðurstöðu. Ég mun leggja mikla áherslu á það að vinna áfram með það mál í sáttafarvegi, ná þeirri niðurstöðu, en það er til að geta þróað  áfram starfsemina á Reykjavíkurflugvelli, þar sem hann er, þar til við höfum tekið ákvörðun um fara eitthvað annað og gera eitthvað annað.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi