Mesta hækkun húsnæðisverðs í heimi

21.03.2017 - 17:06
Mynd með færslu
Í Hafnarfirði. Mynd úr safni.  Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Húsnæðisverð hækkaði hvergi í heiminum jafn mikið í fyrra og á Íslandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu breska ráðgjafafyrirtækisins Knight Frank. Sérfræðingar þess meta verðhækkunina 14,7%, frá fjórða ársfjórðungi 2015 til fjórða ársfjórðungs 2016. Á sama tímabili hækkaði húsnæðisverð í Evrópu að meðaltali um 5,4%. Húsnæðisverð í heiminum öllum hækkaði að meðaltali um 6%.

Hækkunin sem Knight Frank mælir hér á landi er mun meiri en á sama tíma í fyrra; þá var hún 9% en mælist nú 14,7%. Í skýrslu Knight Frank er verðhækkunin á Íslandi rakin til styrkari efnahags, lækkunar stýrivaxta og ukins áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi.

Samkvæmt tölum Knight Frank hefur fasteignaverð hækkað næst mest á Nýja Sjálandi, um 12,7%, og þar á eftir á Möltu og í Kanada. Hvað grannríki Íslands varðar, hækkaði fasteignaverð um rúm 10% í Þýskalandi og í Noregi; um 6,1% í Svíþjóð; 4,5% í Bretlandi; og 3,9% í Danmörku. Í Svíþjóð hefur hægt mjög á verðhækkunum – úr 12,3% á sama tímabili í fyrra.

Skýrsluhöfundar benda á að í Svíþjóð hafi nýjar reglur verið settar í júní í fyrra, sem kveða á um að aðeins megi veita lán fyrir 85% af andvirði húsnæðis. Þá vekja skýrsluhöfundar athygli á því að fasteignaverð í Eystrasaltsríkjunum fari nú ört hækkandi. Síðustu tólf mánuði hækkaði það um 11,6% í Litháen, 10,7% í Eistlandi og 7,6% í Lettlandi.

Fasteignaverð hefur svo lækkað lítillega í Grikklandi og á Ítalíu. Í Úkraínu hefur fasteignaverð lækkað mikið – um 10,2% á síðustu 12 mánuðum.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV