Margt brýnna en nýtt flughlað á Akureyri

10.07.2017 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, segir að ef forgangsraða þurfi fé í flugvelli landsins sé margt brýnna en nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli. Um 800 milljónir króna þurfi til að ljúka þar framkvæmdum. Búið er aka tæplega 150 þúsund rúmmetrum af efni úr Vaðlaheiðargöngum í flughlaðið.

Efnið sem flutt hefur verið úr Vaðlaheiðargöngum hefur dugað til að móta nýtt flughlað og þar er nú komið undirlag sem hægt verður að byggja á. Ekki er gert ráð fyrir meira efni úr göngunum í þetta verkefni og því verður að sækja alla viðbót annað.

Segir kosta 800 milljónir að ljúka við flughlaðið

Fjármagn í nýtt flughlað er ekki á fjárlögum en Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, segir miklar og kostnaðarsamar framkvæmdir eftir. „Því það á bæði eftir að móta þarna og leggja frárennsli, olíusíur og ýmislegt inn í flughlað sem eru gerðar kröfur um í dag að séu í svona mannvirkjum. Og síðan þarf að leggja á þetta malbik sem þarf að vera þykkt og mikið til þess að bera þunga af mörgum flugvélum. Þannig að ég geri ráð fyrir því að við séum að tala að minnsta kosti um 800 milljónir sem væru þá eftir til þess að þarna yrði fullklárað flughlað."

Mörg verkefni brýnni í augnablikinu

Og hann segist ekki draga úr mikilvægi flughlaðs á Akureyrarflugvelli til lengri tíma litið. Hinsvegar séu mörg önnur verkefni brýnni í augnablikinu. „Undanfarin ár hefur ekki farið nægjanlegt fjármagn inn í innanlandskerfið þannig að það er komið að stórum viðhaldsverkefnum á mörgum öðrum völlum. Og ef að við værum beðin að forgangsraða þá væri flughlað framarlega, en það væri ekki fremst á lista hjá okkur á næstu árum. Það kemur fyrr núna til dæmis eins og Egilsstaðaflugvöllur, það þarf að endurgera malbikið á honum, Ísafjarðarflugvöllur er kominn að viðhaldi og svona mætti lengi telja."