Meirihluti er fyrir því á danska þinginu að skylda húðflúrara til að fá vottun yfirvalda til að starfa. Dæmi eru um það í Danmörku að fólk sé frá vinnu um lengri tíma vegna mistaka við húðflúrun.

Fyrir fimmtán mánuðum fékk Heidi Sørensen sér húðflúr á öxlina. Húðflúrarinn gerði þá afdrifarík mistök og liturinn fór of djúpt í húðina. Hún líður svo mikinn sársauka vegna þessa að hún hefur ekki getað unnið mánuðum saman. 

Danski þjóðarflokkurinn hefur nú lagt fram tillögu á þingi um að allir húðflúrarar þurfi að hafa starfsleyfi frá yfirvöldum. Þess verði krafist að húðflúrarar hafi menntun, að hreinlæti sé í lagi og að hægt sé að tryggja gæði húðflúrsstofunnar. Tillagan nýtur víðtæks stuðnings á þingi.

Danskur húðlæknir, Jørgen Serup, segir að til hans leiti meira en hundrað manns á ári vegna húðflúrsvandamála. Það séu engir smákvillar eða hégómi, heldur fólk sem sé virkilega veikt af völdum húðflúranna. Hann segir ennfremur að strangar kröfur til húðflúrara séu það eina sem geti veitt viðskiptavinum öryggi.