Lést fjórum dögum fyrir 16 ára afmælið

09.01.2017 - 14:36
„Þeim er örugglega talin trú um að þetta sé allt hættulaust og þetta sé bara gott. Þegar þau byrja að reykja gras og eitthvað, að þetta sé bara náttúrulegt lyf og þetta geri bara gott og þau trúa þessu,“ segir Hildur Hólmfríður Pálsdóttir, móðir Ölmu Maureen Vinson, sem lést fjórum dögum fyrir 16 ára afmælið sitt. Banameinið var of stór skammtur af morfínlyfinu Contalgin.

„Dílerinn er náttúrulega bara besti vinurinn og þau trúa öllu sem hann segir en þetta er náttúrulega bara kjaftæði. Þetta er bara eitur. Maður sér bara að þetta leiðir alltaf í eitthvað meira og sterkara og þetta endar yfirleitt bara á einn veg,“ segir Hildur.  

Kastljós hefur öðru hverju fjallað um læknadóp síðustu ár, auðvelt aðgengi að því og afleiðingarnar fyrir þann alltof stóra hóp sem ánetjast því. Því miður virðist lítið breytast - dauðsföllum af völdum þessara lyfja hefur fjölgað í hlutfalli við aukningu í ávísunum þeirra og tilraunir til að stemma stigu við þessu hafa ekki borið árangur.

Hildur segir úrræðaleysi ríkja í málefnum ungra fíkla. Alltof margir ánetjist lyfjum sem komi úr íslenskum apótekum og eru seld á svörtum markaði. Forvarnir þurfi að byrja fyrr enda geri ungmenni sér ekki alltaf grein fyrir hversu lífshættuleg þessi lyf séu.

Nánar er rætt við móður Ölmu í Kastljósi í kvöld.