Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, segir að gangast þurfi við því að endurskoða þurfi launastefnu ríkisins hér á landi. Annars verði staðið frammi fyrir miklum vandræðum í opinberri þjónustu.
„Ef við tökum ekki á þessu máli þá verður þessu fólki sem sinnir þessari þjónustu ekki til að dreifa eftir nokkurn tíma,“ segir hann aðspurður hvort forsvaranlegt sé, miðað við ástandið í heilbrigðiskerfinu, að félagsmenn í BHM séu svo harðir í horn að taka í verkfallsaðgerðum. „Það er orðinn verulegur mönnunarvandi víða í heilbrigðiskerfinu og þá verður ekkert leitað eftir einhverjum undanþágum. Við erum að reyna að ná launum upp á þessum stöðum þannig að það sé hægt að manna þessi störf yfirleitt.“
Samninganefnd BHM hafnaði tilboði ríkisins fyrr í dag og lagði síðan fram móttilboð. Því tilboði hafnaði samninganefnd ríkisins og sleit viðræðunum. Verkföll beggja hópa halda því áfram. Aðspurður segir Páll að ekki sjáist til lands í kjaradeilunni.