Landvörður reynir að stöðva silfurbergsþjófnað

13.06.2017 - 10:00
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Sérstakur landvörður verður ráðinn í sumar til að verja fágætt silfurberg í Helgustaðanámu fyrir óprúttnum steinasöfnurum. Tærir kristallar úr silfurbergi voru fyrr á öldum eftirsóttir til rannsókna vegna sérstaks ljósbrots.

Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisstjóri Fjarðabyggðar, segir dæmi um að fólk fylli bakpoka af kristöllum og láti boð um að skila þeim sem vind um eyru þjóta. Sveitarfélagið hafi þrýst á um landvörslu í námunni. „Það hefur bara verið þannig undanfarin ár. Mikið brottnám á steinum og landvörður varð vitni að því síðasta sumar þar sem fólk var að fylla bakpokana sína, setja í vasana, brjóta niður úr námunni efni og fjarlægja steina. Það er þannig að það er lítið eftir í námunni í dag,“ segir Anna Berg.

Dæmi um að þjófar neiti að skila kristöllum

Landvörður gat aðeins komið við í Helgustaðanámu þrisvar sinnum síðasta sumar enda átti hann sinna stóru svæði sem náði allt til Teigarhorns í Djúpavogi. Landvörðurinn sem nú verður ráðinn er sérstök viðbót, mun starfa í 25 vikur, aðallega í Helgustaðanámu en á reyndar líka að sinna öðrum náttúruvættum í nágrenninu. Óvíst er hvernig muni ganga að höfða til staðfastra steinaþjófa og hvort lögregla þurfi að koma að málum. Anna Berg segir að síðasta sumar hafi fólk tekið því misvel þegar landvörður reyndi að stöðva brottnám. „Það voru einstaklingar sem tóku því vel og skildu eftir það sem þeir höfðu tekið. En svo voru aðrir sem létu eins og þeir hefðu ekki heyrt það og gengu sína leið.“

Hún segir að landvörður mun fræða fólk áður en það leggur af stað í námuna. „Það fari í rauninni ekki af stað í að taka steina með sér og sjá til þess að þeir sem að ætla sér að gera slíkt að stöðva þá.“