Kviknaði í rafsígarettu í flugvélinni

13.09.2017 - 22:27
„Það virðist vera svo, eftir því sem við höfum fengið að vita, að það hafi kviknað í rafsígarettu í farangurshólfi ofan sætanna. Þeirri sígarettu var síðan kastað inn á klósett. Þá fer eldvarnakerfið í gang og það er ljóst að það er eldur um borð,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, um flugvélina sem snúa varð aftur til Keflavíkurflugvallar í kvöld.

Neyðarstigi var lýst yfir þegar tilkynning barst um eld í flugvélinni. Rauði krossinn sendi áfallateymi á staðinn og Rannsóknarnefnd samgönguslysa fór strax um borð til að rannsaka málið. Stór hópur var kallaður út: björgunarsveitarmenn, slökkviliðsmenn, lögregla, fulltrúar ISAVIA og fleiri.

Farþegarnir voru fluttir í rútum austur fyrir fjall þar sem þeir fá gistingu á hótelum í nótt.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV